Fréttasafn  • Erla Bjarney Árnadóttir, Gogogic og Björn Þór Jónsson, HR

26. maí 2010

Leikjadagur HR og IGI

Háskólinn í Reykjavik og Samtök leikjafyrirtækja á Íslandi (IGI, Icelandic Gaming Industry) standa fyrir „leikjadegi“ í húsnæðí HR við Nauthólsvík, laugardaginn 29. maí. Tilgangurinn er að styrkja og efla vaxtarmöguleika íslenska tölvuleikjaiðnaðarins og fagna því að tölvunarfræðideild HR hafi formlega hafið samstarf við IGI og leikjaiðnaðinn um kennslu og rannsóknir á sviði tölvuleikja.

Leikjadagurinn hefst kl. 14.00 og stendur yfir til kl. 17.00. Flutt verða stutt erindi um leikjaiðnaðinn og í lok dags veitir IGI verðlaun fyrir bestu tölvuleikjahugmyndina.

Íslenski tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vakið nokkra athygli á undanförnum mánuðum, enda er þessi iðnaður einn af fáum sem hefur eflst mjög í kjölfar kreppunnar. Þar er að finna blöndu af öflugum fyrirtækjum, eins og CCP og Betware, og ungum sprotafyrirtækjum, eins og Gogogic og Mindgames.

Samstarf tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík og leikjaiðnaðarins hefur verið að byggjast upp um árabil og með samstarfssamningi við IGI er verið að gera það formlegt. Í samstarfssamningnum felst meðal annars að starfsfólk fyrirtækja í IGI kenni valnámskeið sem nýtist nemendum í nýrri leikjaþróunarlínu HR eða öðrum námslínum. Þá verður leitast við að starfa saman að rannsóknum og þróun á sviði tölvuleikja, meðal annars í gegnum lokaverkefni nemenda.

Leikjaþróunarlína hefst í fyrsta sinn í Háskólanum í Reykjavík í haust en hún er hluti af BSc-námi í tölvunarfræði. Hún samanstendur af fimm námskeiðum, eða sem samsvarar einni önn í náminu. Góðir tölvuleikir eiga það almennt sameiginlegt að vera flókin hugbúnaðarkerfi, þótt kröfurnar til þeirra geti verið breytilegar. Leikjaiðnaðurinn þarfnast því velmenntaðra tölvunarfræðinga.

Allar nánari upplýsingar um nám og rannsóknir í tölvunarfræði má finna á www.hr.is/td.

Nánari upplýsingar veita: Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR, yfirhönnuður hugbúnaðar hjá Betware og stjórnarmaður í IGI, í síma: 898 4482 og Björn Þór Jónsson, starfandi deildarforseti tölvunarfræðideildar HR, í síma: 820 6240.