Fréttasafn  • Samkomulag um hlývatnseldi á Flúðum

28. maí 2010

Hlývatnseldi á Flúðum

Hrunamannahreppur, Íslensk matorka ehf. og Matís ohf. undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um uppbyggingu á orkufrekum matvælaiðnaði á Flúðum sem m.a. felur í sér hlývatnseldi á hvítum matfiski. Uppbyggingin verður unnin í samstarfi við Orkustofnun þar sem stofnunin verður leiðbeinandi og ráðgefandi.

Nýting á jarðhita og raforku skipta miklu fyrir atvinnulíf í Hrunamannahreppi. Hlývatnseldi byggir á nýtingu á volgu vatni og raforku auk þess sem sérlega er hugað að sjálfbærni og vistvænum framleiðsluaðferðum. Slík uppbygging í orkufrekum matvælaiðnaði fellur vel að nýtingaráformum á orku- og jarðhita, öðrum matvælaiðnaði og matvælatengdri ferðamannaþjónustu í sveitarfélaginu.

Gert er ráð fyrir að á annan tug nýrra starfa skapist við sjálft hlývatnseldið, auk þess sem fjöldi afleiddra starfa munu fylgja í kjölfarið.

Íslensk matorka ehf sérhæfir sig í orkufrekum matvælaiðnaði til útflutnings. Markmið fyrirtækisins er að nýta íslenska orku á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt, skapa grunn að nýjum útflutnings- og atvinnutækifærum og efla nýsköpun og þróun.