Fréttasafn



  • Raforka

31. ágú. 2010

Hækkanir á raforku erfiðar fyrir iðnaðinn

Nýkynntar hækkanir á orkuverði eru áfall fyrir iðnað í landinu segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Gjald fyrir raforkudreifingu hækkar um 40%, rafmagnsverð um 11% auk þess sem verð á heitu vatni hækkar um 35%. „Margar iðngreinar eru orkufrekar og því er þessi hækkun nú sem reiðarslag fyrir fjölda fyrirtækja. Ekkert svigrúm er fyrir þau til að taka á sig þessarar hækkanir og geta þau lítið annað gert en að velta þeim út í verðlagið. Hækkunin kemur á versta tíma nú þegar við vorum að vonast til að einhver bati sé að koma fram í hagkerfinu. Þetta hægir verulega á hjöðnun verðbólgunnar og verður líklega helsti drifkraftur hennar á næstunni“.

Bjarni segir þessar hækkanir leiða hugann að skipulagi raforkumarkaðarins og hvernig til hefur tekist við innleiðingu nýlegra raforkulaga. Okkar athuganir gefa til kynna að sérleyfishluti raforkumarkaðarins hafi hækkað talsvert meira í verði síðustu misserin umfram samkeppnishlutann. Nýkynntar hækkanir munu enn auka á þann mun. Í mínum huga er þetta undarlegt og í mótsögn við áform og markmið raforkulaganna“, segir Bjarni Már að lokum.