Fréttasafn  • Athafnavika_logo_isl

9. nóv. 2010

Alþjóðleg athafnavika 2010

Alþjóðleg athafnavika 2010 hefst 15. nóvember á Íslandi og um allan heim, en um er að ræða hvatningarátak til nýsköpunar.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI er einn af talsmönnum Alþjóðlegrar athafnaviku. Hlutverk þeirra er að  minna á gildi athafnasemi fyrir samfélagið með umfjöllun og þátttöku í viðburðum. Þeir hafa ólíkan bakgrunn og vekja því athygli á ýmsum þáttum athafnasemi. Allir eiga þeir þó sameiginlegt að vera jákvæðar fyrirmyndir og trúa á mikilvægi nýsköpunar og athafnasemi fyrir íslenskt samfélag !

Samtök iðnaðarins tengjast Alþjóðlegri athafnaviku ennfremur með því að gera ráðstefnuna Nýsköpun alls staðar – tækifærin í fjárlagafrumvarpinu sem haldin er í tengslum við Ár nýsköpunar að einum viðburði Athafnaviku. Sjá nánar um ráðstefnuna hér.

Alþjóðleg athafnavika fer fram dagana 15. – 21. nóvember og tengir saman fólk og hugmyndir um allan heim, þvert á öll landamæri og menningarstrauma. Boðið verður upp á fjölda viðburða sem hannaðir eru til þess að kynna fólki leiðir til að nýta hæfileika sína til nýsköpunar, athafnasemi og frumkvöðlahugsunar. Nemendur, frumkvöðlar, stjórnendur, starfsmenn fyrirtækja, stjórnmálaleiðtogar og margir fleiri munu taka þátt í fjölda viðburða af öllum stærðum og gerðum á meðan Athafnaviku stendur. Með þessu frumkvæði mun næsta kynslóð frumkvöðla fá innblástur og hvatningu til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Á einni viku munu milljónir manna um allan heim taka þátt í ört stækkandi hreyfingu fólks og frumkvöðla sem vilja knýja fram jákvæðar breytingar á sínu eigin lífi og samfélagi. Meira en 100 þjóðir í sex heimsálfum sameinast í Alþjóðlegri athafnaviku með það að markmiði að hvetja fólk til að tileinka sér nýsköpun, athafnasemi og frumkvöðlahugsun.

Með þátttöku í Athafnaviku mun athafnafólk læra leiðir til að afla sér þekkingar, virkja hæfileika sína og afla sér þeirra sambanda sem nauðsynleg eru til að koma á fót sjálfbærum rekstri með jákvæð áhrif á líf þeirra, fjölskyldu og samfélag. Markmið Athafnaviku er að frumkvöðlar verði brautryðjendur efnahagslegrar og samfélagslegrar hagsældar um allan heim. 

Umsjónaraðili Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi er Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur.

Allar nánari upplýsingar á www.athafnavika.is.