Fréttasafn  • Ár nýsköpunar-lógó-grátt

16. nóv. 2010

Nýsköpun alls staðar – tækifærin í fjárlagafrumvarpinu 2011

Umræðufundur föstudaginn 19. nóvember 2010 - kl: 13:00-15:45 Hilton Reykjavík Nordica Hótel

Vikuna 15.-21. nóvember er Alþjóðleg athafnavika sem Innovit stendur fyrir. Þann 19. nóvember nk. hafa SI í tengslum við Ár nýsköpunar sett upp skemmtilega dagskrá þar sem ætlunin er að rýna í fjárlagafrumvarpið 2011 með augum nýsköpunar.

Þrátt fyrir að frumvarpið feli í sér mikinn niðurskurð viljum við skoða tækifærin í því. Mótsögnin er að í niðurskurðinum felast þau tækifæri að núna getum við ekki haldið áfram að gera alla hluti á sama hátt og áður – við verðum einfaldlega að finna nýjar leiðir til að halda uppi þjónustunni og helst bæta hana fyrir minna fé en áður. Þetta kallar á nýja hugsun, nýjar leiðir og nýjar lausnir. Með öðrum orðum það sem við köllum NÝSKÖPUN. Sjá meðfylgjandi dagskrá.

Við höfum fengið til liðs við okkur fimm ráðherra, forsvarsmenn fyrirtækja, háskóla og stofnana til að rýna í fjárlagafrumvarpið með augum nýsköpunar. Í pallborði munum við horfa á fjárlagafrumvarpið 2011 út frá sjónarhóli nýsköpunar á sviði, orku-, heilbrigðis- og menntamála. Hugmyndin er að ræða tækifæri til samstarfs stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja sem snúa í senn að því að efla og bæta þjónustuna fyrir minna fé, en um leið skapa nýjar lausnir sem geta orðið verðmætar útflutningsafurðir. Fundargestum býðst einnig að koma með spurningar/ábendingar til þátttakenda í pallborði.

Dæmi um spurningar sem við ætlum að ræða á fundinum eru: Hvaða tækifæri felast í fjárlagafrumvarpinu 2011 til að hefja endurreisn atvinnulífsins? Hvernig ætti ríkisstjórnin að forgangsraða í því takmarkaða svigrúmi sem fjárlögin fela í sér? Felast jafnvel tækifæri í niðurskurðinum?

Aðgangur er ókeypis en skrá þarf þáttöku í síma 591 0100 eða á netfangið mottaka@si.is.