Fréttasafn



  • Frae-arsins-2011

1. feb. 2011

Frestur til að skila inn hugmynd í Fræ ársins rennur út í dag

Háskólinn í Reykjavík, í samvinnu við Össur hf., Samtök iðnaðarins, Klak - nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins, Landsvirkjun og Eyri Invest ehf., kallar eftir hugmyndum sem gætu orðið FRÆ ÁRSINS 2011. Fræ ársins er útnefnt árlega, en markmið þess er að styðja við frumstig nýsköpunar með því að gefa frumkvöðlum tækifæri til að breyta hugmynd eða frumgerð í viðskiptaáætlun og sprotafyrirtæki.
 
Verðlaunafé er kr. 1.000.000.-, að auki fá aðstandendur þeirrar hugmyndar sem hlutskörpust verður, vinnuaðstöðu og niðurfelld skólagjöld í Viðskiptasmiðju Klaksins. Með þessu fá frumkvöðlar ekki aðeins fjárstuðning til að vinna að hugmynd sinni, heldur einnig það umhverfi, þá þjálfun og þann stuðning sem þarf til að fullgera viðskiptaáætlun og koma á fót starfandi sprotafyrirtæki.
 
Allir einstaklingar með lögheimili á Íslandi geta sent inn eigin hugmyndir og/eða tilnefnt hugmyndir annarra í umboði þeirra. Allar hugmyndir þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
 
    * Hugmyndin er ný
    * Hugmyndin er framkvæmanleg
    * Ekki hefur verið skráð fyrirtæki um hugmyndina
 
Öllum er velkomið að taka þátt en sérstakt tillit verður tekið til hugmynda sem tengjast tækni og fólki, svo sem nýjar tæknihugmyndir og hugmyndir að lausnum sem stuðla að betra samfélagi.
 
Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2011. Senda inn hugmynd.

Í skráningu hugmyndar þarf eftirfarandi að koma fram:

  1. Heiti verkefnis
  2. Aðstandendur verkefnis
  3. Samstarfsaðilar
  4. Stutt lýsing á hugmyndinni
  5. Gildi hugmyndar í nýrri tækni, bótum fyrir samfélag, o.s.frv.
  6. Lýsing á næstu skrefum í þróun hugmyndar (hvað gerist næsta árið)
  7. Staðfesting á að hugmyndin sé ný og að hún sé ekki í þróun hjá skráðu fyrirtæki


Nánari upplýsingar veitir Eva Þengilsdóttir, forstöðumaður markaðssviðs HR.