Fréttasafn  • Storidjuskolinn-utskrift2011

18. maí 2011

Tvö hundraðasti nemandinn útskrifast úr Stóriðjuskólanum - námið nú metið sem hálft stúdentspróf

 Útskrift nemenda úr grunnnámi Stóriðjuskóla álversins í Straumsvík fór fram, mánudaginn 16. maí, í sextánda sinn.

Að þessu sinni útskrifuðust ellefu nemendur og hafa þá alls 206 nemendur lokið grunnnámi og hlotið titilinn „stóriðjugreinir“ frá stofnun skólans árið 1998.

Upplýst var við athöfnina að menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta grunn- og framhaldsnám skólans til allt að 78 eininga á framhaldsskólastigi, eða sem samsvarar rúmlega hálfu stúdentsprófi, sem er 140 einingar. Þar af er grunnnám Stóriðjuskólans nú metið til allt að 34 eininga og framhaldsnámið til allt að 44 eininga.

Fram til þessa hefur grunnnámið verið metið til 24 eininga. Forsendan fyrir endurmatinu er að komin er út námsskrá fyrir starfsfólk í stóriðju, sem ISAL vann í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, sagði að þetta væri í senn dýrmæt viðurkenning fyrir skólann og mikilvæg lyftistöng fyrir þá starfsmenn sem hefðu hug á að sækja sér aukna menntun.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, flutti ávarp við athöfnina og sagði stofnun Stóriðjuskólans sýna metnað fyrirtækisins. Álverið í Straumsvík væri dæmi um vel rekið fyrirtæki og að þjálfun og þekking starfsmanna væri lykillinn að því að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst.

Sjá nánar á www.alcan.is