Fréttasafn



  • Greenqloud-logo

19. maí 2011

Gartner velur GreenQloud sem eitt af 5 áhugaverðustu umhverfistæknifyrirtækjum heims

Hið heimsþekkta ráðgjafa- og greiningafyrirtæki Gartner (http://gartner.com) gaf nýverið út skýrslu yfir 300 áhugaverðustu sprotafyrirtæki heims. Skýrslan sem ber heitið "Cool Vendors 2011" og skiptist í fjölmarga flokka en íslenska sprotafyrirtækið GreenQloud var valið eitt af 5 fyrirtækjum í flokki umhverfistæknifyrirtækja eða “Cool Vendors in GreenIT and Sustainability 2011". "Cool Vendor" er hugtak Gartner yfir lítil fyrirtæki þykja skara framúr í virðisaukandi þjónustu í sínum geira og eru frumkvöðlar í tækni með ferska framtíðarsýn.  

Gartner er leiðandi fyrirtæki á sviði rannsókna og ráðgjafar en það hefur á sínum snærum yfir 1200 ráðgjafa og greinendur í 80 löndum. Það er því er mikill ávinningur falinn í því fyrir GreenQloud að fá svo jákvæða umfjöllun frá jafnvirtum aðila. Fyrirtæki sem valin eru í þennan flokk hafa oftar en ekki orðið að stórum fyrirtækjum eða verið keypt upp af stærri aðilum.  

GreenQloud vinnur að því að opna umhverfisvænasta tölvuský heimsins hér á Íslandi. 

“Að hljóta viðurkenningu frá fyrirtæki eins og Gartner sem er leiðandi í rannsóknum og ráðgjöf í upplýsingatækni er mikill heiður fyrir lítið sprotafyrirtæki á Íslandi með stórar hugmyndir” segir Eiríkur Sveinn Hrafnsson, framkvæmdastjóri GreenQloud, “við munum opna tölvuský okkar fyrir viðskiptavinum á næstu vikum en líklega verða færri sem komast að en vilja fyrsta um sinn þar sem um BETA prófun eða reynsluopnun er að ræða og á annað þúsund viðskiptavinir hafa þegar skráð sig til þátttöku. Sú stefna sem við höfum sett okkur að fylgja varðandi ábyrgð okkar í umhverfismálum og losun koltvísýrings fellur greinilega í góðan jarðveg bæði erlendis og hér heima, þessi viðurkenning staðfestir það.”

Tölvuský komu nýlega á sjónarsviðið í upplýsingatækniiðnaðinum. Tölvuský eru í raun hugbúnaðarkerfi sem gera kleift að samnýta mikið magn tölvubúnaðar í gagnaverum til fjárhagslegar og rekstrarlegar hagræðingar. Tölvuský eru alsjálfvirk og gera fólki kleift að leigja vinnslugetu, hýsingarpláss ofl. til mjög skamms (klukkustundar) eða lengri tíma eftir þörfum t.d. tímabundnu álagi á tölvukerfi fyrirtækja. Með þessu móti þurfa fyrirtæki ekki að kaupa sinn eigin búnað, sama hversu stór þau eru og hratt þau vaxa, og er hagkvæmara fyrir þau að reka sín tölvukerfi "í skýinu"og getur sparnaðurinn verið umtalsverður.  

Mikill misskilningur hefur myndast á Íslandi um hvað tölvuský eru en hvorki gagnaver né hefðbundin sýndarvélahýsing fellur undir þá skilgreiningu á alþjóðavísu. Tölvuský byggja grunntækni sína vissulega á sýndarvæðingu vélbúnaðar en það er aðeins hluti af því sem tölvuský gera því þau eru blanda af nýrri tækni og gjörbreyttu viðskiptamódeli í rekstri tölvukerfa og upplýsingavinnslu. Eitt lykileinkenni tölvuskýja er að þau má betrumbæta og stýra með þjónustum þriðju aðila gegnum svokallaðar vefþjónustur yfir Internetið. GreenQloud hefur einmitt þróað víðtækan stuðning við iðnstaðla sem gerir skýjaþjónustuaðilum kleift skipta yfir í umhverfisvænt tölvuský GreenQloud án breytinga á eigin hugbúnaði. 

Sem dæmi um þjónustur keyrðar í tölvuskýjum má nefna DropBox, NetFlix, FarmVille á Facebook og íslensku tónlistarþjónustuna Gogoyoko. Auk þess hýsa fjölmörg íslensk fyrirtæki eingöngu á erlendum tölvuskýjum. 

Upplýsingar um GreenQloud:

GreenQloud Tölvuský ehf. er rúmlega ársgamalt sprotafyrirtæki, formlega stofnað í byrjun árs 2010 af þeim Eiríki Sveini Hrafnssyni og Tryggva Lárussyni. Tækniþróunarsjóður og Impra á Nýsköpunarmiðstöð hafa styrkt verkefnið myndarlega og á GreenQloud í góðu samstarfi við marga innlenda og erlenda aðila. Í dag starfa 10 manns hjá fyrirtækinu við þróun hugbúnaðar og í viðskiptaþróun og er fyrirtækið komið að því að hefja Beta prófanir á lausnum sínum.