Fréttasafn  • CRIog SI fundur

2. júl. 2012

Metanól eldsneyti framtíðar

Metanól sem eldsneyti framtíðarinnar var umfjöllunarefni fundar sem haldinn var föstudaginn 29. júní af Carbon Recycling International, CRI, í samstarfi við Samtök iðnaðarins. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI opnaði fundinn. Surya Prakash, prófessor í efnafræði við University of Southern Californa, forstöðumaður Loker Kolefnisstofnunarinnar og höfundur bókarinnar Metanólhagkerfið fjallaði um metanól sem eldsneyti framtíðarinnar. Þá ræddi prófessor Kuiling Ding, sem er framkvæmdarstjóri Shanghai stofnunarinnar í Lífrænni efnafræði og forstöðumaður Vísindarakademínunnar í Shanghai, m.a. um rannsóknir akademíunnar á aðferðum til að nýta koltvísýring sem hráefni til framleiðslu í efnaiðnaði.

Einnig fjallaði Benedikt Stefánsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Carbon Recycling International um starfsemi CRI og kynnti ræðumenn og samstarf þeirra við fyrirtækið.

Prófessor Kuiling Ding var einn fjögurra í sendinefnd kínverskra vísindamanna sem heimsótti CRI í vikunni, en þeir tengjast allir kínversku Vísindaakademíunni í Shanghai. Fyrir kínversku sendinefndinni fór prófessor Chunli Bai, forseti kínversku Vísindaakademíunnar, en hann er þekktur vísindamaður á sviði rafeindasmásjártækni og heiðursfélagi í bandarísku Vísindaakademíunni (NAS), rússnesku Vísindaakademíunni, bresku Efnafræðiakademíunni og indversku Vísindaakademíunni. Auk þeirra voru í sendinefndinni Long Lu prófessor við akademíuna og Qiang Fan aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðasamskipta við sömu stofnun.

Tilgangur heimsóknar kínversku gestanna var að kynna sér starfsemi CRI. Skoðuðu þeir m.a. verksmiðju fyrirtækisins í Svartsengi í þeim tilgangi, þar sem koltvísýringur sem losaður er frá jarðvarmavirkjun HS Orku er endurunninn til framleiðslu endurnýjanlegs metanóls til nota til íblöndunar í bensín á bifreiðar. Þá áttu þeir fund með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins þar sem skipst var á skoðunum.