Fréttasafn  • Móðurborð

21. ágú. 2012

Vantar 1000 tæknimenntaða á ári

Það sárvantar forritara og annað tæknimenntað fólk hér á landi, eins og annars staðar í heiminum. Það má gera ráð fyrir að íslensk fyrirtæki vanti um þúsund manns á ári.

 

Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og hönnunarstjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Betware, var gestur Morgunútvarpsins 10. ágúst sl. Þar sagði hann mikilvægt að reynt verði að mæta þessari þörf. Ástandið sé þannig að Háskólinn í Reykjavík útskrifi 88 tölvumenntaða á ári og sér reiknist til að ef allt tæknimenntað fólk sé talið saman, þá séu það um 500 sem útskrifist á ári. Ekki bæti úr skák að samkeppnin við önnur lönd sé mikil og margir sjái sér þann hag vænstan að flytja úr landi.

Það þarf að mennta fleira fólk á þessu sviði segir Ólafur en til þess þurfi að beina miklu meira fjármagni til þeirra sem það gera. Það sé mikilvægt upp á framtíðaratvinnuhorfur hér á landi. Þeir 40.000 sem útskrifist úr skólum á næstu 10 árum muni tæpast fá störf í sjávarútvegi, áliðnaði, landbúnaði eða öðrum framleiðslugreinum. Störfin verði að miklu leyti til í tækni.

Hér má hlusta á viðtalið við Ólaf Andra.