Fréttasafn  • Rakel nörd ársins 2012

16. jan. 2013

Rakel Sölvadóttir valin nörd ársins

Advania efndi í síðustu viku til samkeppni meðal 10 þúsund viðskiptavina og samstarfsaðila fyrirtækisins og leitaði að nörd ársins – þeirri manneskju sem hefur skarað fram úr í íslenskri upplýsingatækni undanfarið ár. Liðlega 300 manns hlutu tilnefningar og þar af fengu 18 manns fleiri en tíu atkvæði. Óháð dómnefnd sérfræðinga í faginu fór síðan yfir tilnefningar og valdi nörd ársins með hliðsjón af þeim.

 

Að þessu sinni var Rakel Sölvadóttir hjá Skema fyrir valinu. Hún hlaut að launum veglegan bikar og flugmiða fyrir tvo með WOW air. „Rakel er stofnandi Skema og brautryðjandi í kennslu í forritun og hugbúnaðarþróun fyrir börn og unglinga. Hún hefur einnig þróað framsækinn kennsluhugbúnað sem hún herjar nú með á erlendan markað. Rakel elur núna upp næstu kynslóðir nörda og sameinar það að vera frumkvöðull, fræðikona, jákvæð og uppörvandi manneskja og sannur leiðtogi á sínu sviði,“ segir meðal annars í umsögn dómnefndar.

Þetta er þriðja árið í röð, sem Advania stendur fyrir valinu á nörd ársins, en árið 2012 urðu hlutskarpastir þeir Gunnar Grímsson og Róbert Bjarnason frumkvöðlar í lýðræðislausnum hjá ibuar.net og 2011 varð Hjálmar Snær Gíslason stofnandi DataMarket fyrir valinu.