Fréttasafn



  • anaegjuvogin2012

26. feb. 2013

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar kynntar

Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2012 voru kynntar þann 21. febrúar 2013 og er þetta fjórtánda árið sem ánægja viðskiptavina íslenskra fyrirtækja er mæld með þessum hætti.

Niðurstöður 2012

Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 28 fyrirtæki í 9 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á 200-600 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Um er að ræða netkönun sem send er á 2500-3000 manna slembiúrtak á hverjum markaði og þarf að lágmarki að nást að safna 200 svarendum á hvert fyrirtæki til að niðurstöður þess fyrirtækis séu birtar.

Hæstu einkunn allra fyrirtækja árið 2012 hlýtur Nova, 71,6 stig af 100 mögulegum. Nova er því heildarsigurvegari Íslensku ánægjuvogarinnar árið 2012 líkt og árið 2011 og jafnframt sigurvegari í flokki farsímafyrirtækja.  Fast á hæla Nova kemur ÁTVR sem er efst flokki smásöluverslana með einkunnina 71,1. Í fyrsta sæti í flokki banka er Landsbankinn með einkunnina 62,9 og í flokki tryggingafélaga er Tryggingamiðstöðin með hæstu einkunnina, 69,0. HS orka er í fyrsta sæti raforkusala með einkunnina 62,1 og Atlantsolía er efst meðal olíufélaga með einkunnina 68,8. Bauhaus er með hæstu einkunnina meðal byggingavöruverslana, 66,0. Krónan er í fyrsta sæti í flokki matvöruverslana með einkunnina 63,6 og Lyfja sigrar í flokki lyfjaverslana með einkunnina 66,2.

Íslenska ánægjuvogin er félag í eigu Samtaka iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup og sér Capacent Gallup um framkvæmd mælinga. Markmið félagsins er að stuðla að samræmdum  mælingum á ánægju viðskiptavina milli atvinnugreina  og fyrirtækja og er áhersla lögð á staðlaðar spurningar þvert á markaði.  Íslenska ánægjuvogin samanstendur af 11 spurningum en auk ánægjuvogarþáttarins  eru mældir þættir sem tengjast  ímynd fyrirtækisins, væntingum viðskiptavina og mati þeirra á gæðum, verðmæti vöru og þjónustu og tryggð.