Fréttasafn



  • Bygg

3. jún. 2013

Jón Björnsson nýr forstjóri ORF Líftækni

Jón Björnsson hefur verið ráðinn í starf forstjóra ORF Líftækni. Hann tekur við af Dr. Birni L. Örvari sem mun taka við nýrri stöðu framkvæmdastjóra rannsókna- og vöruþróunarsviðs félagsins.

Jón Björnsson hefur mikla reynslu sem stjórnandi stórra fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum. Hann hefur undanfarna mánuði unnið að endurskipulagningu á rekstri Steen & Ström, vinsælustu stórverslunar Osló. Hann var forstjóri Magasin du Nord í Kaupmannahöfn frá árinu 2005 til 2012 og gjörbylti rekstri þeirrar fornfrægu  stórverslunar til hins betra. Frá árinu 2002 til 2005 var hann forstjóri Haga hf. á Íslandi og þar áður  framkvæmdastjóri Hagkaupa frá 1998-2002. Jón situr í stjórnum Åhlens AB, Boozt.com, og tryggingafélagsins Varðar. Jón er menntaður viðskiptafræðingur frá Rider University, New Jersey.

Markmið skipulagsbreytinganna er að efla enn ört vaxandi sölustarfsemi félagsins á alþjóðlegum markaði, en langstærsti hluti tekna félagsins kemur erlendis frá, sem og að efla vöruþróun og rannsóknarstarf. 

„Það hefur verið gaman að fylgjast með þróun ORF Líftækni frá því að vera lítið sprotafyrirtæki í það að selja vöru á neytendamarkaði og velta rúmlega hálfum milljarði króna á ári. Ég hlakka til að takast á við ný verkefni hjá þessu spennandi fyrirtæki. Ég vona að reynsla mín af rekstri og neytendavörumarkaði  muni nýtast fyrirtækinu vel til að halda áfram að vaxa og dafna og festa vörumerki sín enn frekar í sessi á hörðum samkeppnismarkaði,“ sagði Jón Björnsson.

Björn Örvar, einn stofnenda ORF Líftækni og fráfarandi forstjóri sagði: „Ég er mjög ánægður með þann árangur sem við höfum náð á undanförnum árum og held að Jón sé réttur maður til að taka við keflinu og leiða fyrirtækið áfram í næsta áfanga. Ég er mjög spenntur fyrir því að geta nú einbeitt mér að því að efla enn frekar vísinda- og þróunarstarf innan fyrirtækisins.“

ORF Líftækni hf. er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki, stofnað árið 2001. Fyrirtækið framleiðir og selur verðmæt sérvirk prótein sem notuð eru í EGF húðvörur, við læknisfræðilegar rannsóknir og í líftækni. Fyrirtækið hefur þróað einstaka erfðatækni til að framleiða slík prótein í byggi sem er mun hagkvæmari og öruggari en hefðbundin framleiðsla í bakteríum og spendýrafrumum. Aðferðin er afrakstur öflugs vísinda- og þróunarstarfs hjá fyrirtækinu undanfarin ár og byggir á því að nota fræ byggplöntunnar sem smiðju fyrir þessi prótein. ORF Líftækni hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á þessu sviði í heiminum. Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtæki þess starfa nú um 40 starfsmenn.