Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda ganga til liðs við SI og SA
Í dag voru undirritaðir samningar um aðild Samtaka íslenskra kvikmyndaframleiðenda, SÍK, að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins. Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI, Margrét Kristmannsdóttir, varaformaður SA og Hilmar Sigurðsson, formaður SÍK skrifuðu undir samningana.
Í aðildinni felst m.a. að daglegri starfsemi SÍK verður sinnt af skrifstofu SI, auk þess sem samtökin taka að sér samningsmál og samskipti við opinbera aðila svo eitthvað sé nefnt.
Stjórn SÍK er skipuð Hilmari Sigurðssyni, formanni, Kristínu Andreu Þórðardóttur, Kjartani Þór Þórðarsyni, Ingvari Þórissyni og Önnu Maríu Karlsdóttur. Varamenn eru Lilja Ósk Snorradóttir og Guðrún Edda Þórhannesdóttir.
Miklar væntingar eru gerðar til samstarfsins enda er kvikmyndaiðnaðurinn einn af öflugum vaxtasprotum íslensks atvinnulífs.