Fréttasafn9. júl. 2013

Góður árangur íslenskra keppenda á WorldSkills

WorldSkills – heimsmeistaramót iðn- og starfsnámsnemenda 2013 var haldið í Leipzig dagana 3. – 6. júlí. Keppnin fór vel fram og greinilegt að umtalaðir skipulagshæfileikar Þjóðverja eru ekki orðin tóm.

Íslenskir keppendur og dómarar sóttu sér mikla reynslu sem á eftir að skila sér í umræðu um þekkingu iðnnema hér á landi auk þess að lyfta þessum keppnisgreinum á Íslandsmóti iðn- og verkgreina á nýjan stað.

Keppendur voru um 1000 talsins frá 52 löndum og um 200.000 manns fylgdust með keppninni.

Fjögur ungmenni tóku þátt fyrir Íslands hönd að þessu sinni og stóðu sig öll með prýði. Lena Magnúsdóttir, hársnyrtiiðn lenti 16. sæti í sinni grein, Þorri Pétur Þorlákssson, pípulagnir lenti 17. sæti, Laufey Dröfn Matthiasdottir, grafísk miðlun í 22. sæti og Börkur Guðmundsson rafvirkjun í því 27.

Það er Verkiðn sem skipuleggur þátttöku Íslands í WorldSkills. Verkiðn eru samtök um keppnir í iðn- og verkgreinum á Íslandi – SkillsIceland. Markmið þeirra er að auka sýnileika iðn- og starfsmenntunar, bæta ímynd iðn- og verkgreina, halda Íslandsmót iðn- og verkgreina annað hvert ár og vekja athygli á tækifærum sem felast í námi og starfi í þessum greinum. Auk þess eru samtökin samstarfsaðili við erlenda aðila og samtök sem vinna á sama grunni.

Aðild að Verkiðn eiga fagfélög launamanna og atvinnurekenda, hagsmunasamtök iðnaðarmanna og framhaldsskóla eða samtök þeirra. Samtök nemenda í framhaldsskólum (SÍF) eiga rétt á fulltrúa í fulltrúaráði með málfrelsi og tillögurétt.