Fréttasafn



22. ágú. 2013

Verðlaunabrauð LABAK

Landssamband bakarameistara (LABAK) og Matís kynna verðlaunabrauð LABAK. Brauðið er afrakstur keppni sem efnt var til meðal félagsmanna fyrr í sumar og var valið úr 11 innsendum brauðum. Höfundur uppskriftarinnar, Sigurður M. Guðjónsson Bernhöftsbakaríi tók við verðlaunum í húsakynnum Matís í gær þar sem viðstöddum gafst kostur á að smakka á brauðinu og kynna sér það nánar.

Við það tækifæri sagði Jóhannes Felixson, formaður LABAK, frá tilurð keppninnar, en tilgangur hennar er að stuðla að bættri hollustu í fæði landsmanna. Hann nefndi að aðeins einn bakarameistari hefði verið í dómnefndinni en hins vegar lögð áhersla á að fá fólk á ólíkum aldri og af báðum kynjum til dómarastarfanna til að tryggja að mest áhersla væri lögð á bragðgæði og áferð. Verðlaunabrauð LABAK væri með réttu brauð fyrir allan almenning enda valið af almenningi sjálfum.

Embætti landlæknis tók þátt í að setja þær kröfur sem brauð þurftu að uppfylla til að taka þátt í keppninni.

Gerð var sú krafa að brauðin uppfylltu allar kröfur norræna skráargatsins auk þess að geta flokkast sem heilkornabrauð en það þýðir að a.m.k. helmingur mjölsins er heilmalað korn sem inniheldur öll upprunaleg næringarefni kornsins. Ennfremur var gerð sú krafa að a.m.k. 20% af mjölinu væri íslenskt bygg.

Dómnefnd skipuðu Ásgeir Þór Tómasson, bakarameistari, Hótel- og matvælaskólanum, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur, Embætti landlæknis, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, Lýðheilsufræðingur, Háskóla Íslands, Kári Steinn Karlsson, afreksíþróttamaður og Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur, Matís

Sala á verðlaunabrauðinu hefst í bakaríum innan LABAK föstudaginn 23. ágúst.