Fréttasafn17. okt. 2013

Laufey Steingrímsdóttir hlýtur Fjöregg MNÍ 2013

Laufey Steingrímsdóttir, prófessor í næringarfræði, hlaut í gær Fjöregg MNÍ. Laufey var tilnefnd til verðlaunanna fyrir mikilvægt starf í þágu rannsókna, kennslu og uppfræðslu á sviði næringarfræði. Hún er í hugum margra Íslendinga „næringarfræðingur Íslands“ enda verið í virk á vettvangi næringarfræðinnar í áratugi. Laufey hefur meðal annars unnið mikilvægt frumkvöðlastarf við setningu íslenskra manneldismarkmiða og ráðlegginga um mataræði og næringu. Hún er vísindamaður sem unnið hefur ötullega að því að koma niðurstöðum vísindarannsókna, bæði sinna eigin og annarra, til almennings á fjölbreyttan hátt.

Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins afhenti fjöreggið í gær á Matvæladegi MNÍ en efni Matvæladagsins í ár fjallaði einmitt um nýjar áherslur í ráðleggingum um mataræði og næringarefni.