Nýtt upphaf fyrir hundruð fyrirtækja
Samtök iðnaðarins fagna niðurstöðu Hæstaréttar í gær sem stórsigri fyrir hundruð aðildarfyrirtækja sinna sem fengu viðurkenningu á því að lánasamningar hefðu verið gerðir við SP Fjármögnun en ekki leigusamningar. Dómurinn hefur víðtækt fordæmisgildi og mun umbreyta efnahagsreikningum fyrirtækja til góðs, eyða óvissu og skapa mörgum þeirra nýtt upphaf en málið var rekið með stuðningi og aðkomu Samtaka iðnaðarins. Skuldastaða fyrirtækja hefur verið óljós og fyrirtækjum þannig gert ómögulegt að kaupa eða selja framleiðslutæki og tól. Þessi lamandi óvissa hefur staðið síðastliðin þrjú ár tafið verulega fyrir nauðsynlegri endurreisn íslensks atvinnulífs. „Þessi síðasti dómur kemur okkur hjá Samtökum iðnaðarins alls ekki á óvart. Dómstólar hafa ítrekað komist að sömu niðurstöðu varðandi ólögmæta gengistryggða kaup- og fjármögnunarleigusamninga. Ítrekað hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að þessir leigusamningar hafi í raun verið dulbúnir lánasamningar í erlendri mynt og því dæmdir ólöglegir. Fjármögnunarleigufyrirtækjunum ber því að endurreikna þá án frekari tafa. Samningar Landsbankans voru að engu leyti frábrugðnir öðrum ólögmætum gengistryggðum samningum“ segir Árni Jóhannsson forstöðumaður mannvirkjasviðs SI. „Dómurinn hefur áhrif á fjölmörg fyrirtækja í margvíslegum atvinnugreinum. Samningar af þessu tagi er algengir í framleiðsluiðnaði, verktöku, landbúnaði og fiskvinnslu svo eitthvað sé nefnt“, segir Árni.