Fréttasafn



11. feb. 2014

Rakel Sölvadóttir í Skemu hlaut verðlaunin „Skapandi ungir frumkvöðlar“

Rakel Sölvadóttir, stofnandi Skemu, hlaut verðlaunin „Skapandi ungir frumkvöðlar“ sem JCI á Íslandi veitti í fyrsta sinn í síðustu viku. Verðlaunin afhenti Ragnheiður Elín Árnadóttir viðskipta- og iðnaðarráðherra við hátíðlega athöfn í húsakynnum Arion banka við Borgartún.

Við athöfnina kynntu fjórir frumkvöðlar hugmyndir sínar og fyrirtæki og svöruðu spurningum fimm manna dómnefndar. Rakel varð hlutskörpust þeirra, en hinir voru þeir Hilmir Ingi Jónsson stofnandi ReMake Electric, Hjálmar Gíslason stofnandi DataMarket og Eiríkur Hrafsson annar stofnenda GreenQloud. Þau voru valin úr hópi tilnefninga sem barst í gegnum heimasíðu verkefnisins.

„Við sem einstaklingar, neytendur, starfsmenn og eigendur fyrirtækja höfum mikil áhrif á samfélagið og umhverfið,“ sagði Elizes Low verkefnisstjóri. „Við höfum séð frumkvöðla ná miklum árangri sem getur orðið öllum mikil hvatning.“

Fyrirtæki Rakelar, Skema, sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum – með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarljósi og stendur fyrir námskeiðum í leikjaforritun fyrir ungt fólk. Markmið fyrirtækisins er að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins auk þess að rannsaka þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hina ýmsu þætti þroska og námsgetu barna.

Að mati dómnefndar þótti Rakel skara fram úr, ekki síst fyrir aðferðarfræði, sýn og þau jákvæðu langtímaáhrif sem starfsemin getur haft á samfélagið.

Í dómnefndinni sátu KC Tran, forstjóri og einn stofnenda Carbon Recycling International, Árdís Ármannsdottir markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í Umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Páll Ásgeir Davíðsson framkvæmdastjóri og stofnandi Vox Naturee og Jenný Jóakimsdóttir, landsforseti JCI Íslands 2007.

Dómnefnd lagði mat á þá sem tilnefndir voru til verðlaunanna út frá hugmyndum verkefna, innleiðingu gilda samfélagsábyrgðar, lausnum, forystu, ábyrgð og áhrifum á umhverfi og samfélag.

Umsjón með verðlaunaafhendingunni var í höndum JCI Reykjavík International sem er deild í JCI á Íslandi. JCI eru alþjóðleg, frjáls félagasamtök fyrir fólk á aldrinum 18 til 40 ára sem leitast við að stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu.