Hjólaleiðir fengu Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2014 voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í gær, 13. febrúar. Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir Hjólaleiðir á Íslandi og var það unnið af Evu Dís Þórðardóttur úr Háskólanum í Reykjavík og Gísla Rafni Guðmundssyni nemanda í Háskólanum í Lundi, Svíþjóð.
Verkefnið fólst í því að vega og meta hjólaleiðir á Íslandi út frá kröfum EuroVelo verkefnisins með það að markmiði að koma einni leið á Íslandi inn á kort EuroVelo.
EuroVelo heldur utan um meginkerfi reiðhjólaleiða í Evrópu og er ætlað að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku. Á korti EuroVelo eru í dag 14 leiðir, sem eru samtals um 45.000 km langar. Skráning á leið um Ísland inn á kort samtakanna er mikilvægur þáttur í að vekja athygli á Íslandi sem viðkomustað fyrir hjólaferðamenn og auka tækifæri í sjálfbærri ferðaþjónustu hér á landi.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í nítjánda sinn. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin.
Leiðbeinendur þeirra Evu Dísar og Gísla Rafns í verkefninu voru Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir og Ólafur Árnason hjá Eflu, verkfræðistofu.