Rafverktakafyrirtækið Gaflarar hlýtur D-vottun
Rafverktakafyrirtækið Gaflarar ehf hefur staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D-vottun.
D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Með gæðavottunarkerfinu er stefnt að því að gera rekstur fyrirtækja skilvirkari. Í því fer fyrirtækið í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind með það að markmiði að auka framleiðni og hagnað fyrirtækisins.
Gaflarar ehf hóf starfsemi 1.janúar 1992 í Hafnarfirði. Eigendur fyrirtækisins eru Þorvaldur Friðþjófsson, Kristján Viðar Hilmarsson og Ólafur Hjálmarsson.
Aðalstarfsemi fyrirtækisins er raf- og tölvulagnir í nýbyggingar, þjónusta við fyrirtæki og stofnanir, viðhald og viðgerðir á almennum raflögnum ásamt brunaviðvörunar-, innbrotsviðvörunar-, eftirlitsmyndavélar-, og aðgangsstjórnunar-kerfum.
Fyrirtækið ræður yfir starfsmónnum með góða þekkingu á forritun á KNX (insta-bus) á hússtjórnarkerfum ásamt tilheyrandi leyfum.