Fréttasafn



22. okt. 2018 Almennar fréttir

Ný herferð um Ísland

Samtök iðnaðarins eru meðal samstarfsaðila í nýrri herferð Íslandsstofu sem kallast „Ísland frá A til Ö“ og nýtir íslenska tungumálið til að auka vitund um Ísland sem góðan stað til að heimsækja, upprunaland gæða í matvælum, vörum og framleiðslu og tilvalinn stað fyrir fjárfestingar og viðskipti

Níu Íslendingar koma fram í myndböndum og veita innsýn í íslenskt samfélag í gegnum sín störf og áhugamál, meðal þeirra eru Eliza Reid, forsetafrú, og Vilborg Arna Gissurardóttir, göngugarpur, og Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur. Herferðin nýtir íslenska stafrófið sem leiðarvísi til að kynna land og þjóð. Leiðarvísirinn skiptist í þrennt: „journey“ sem kynnir Ísland sem áfangastað, „taste“ sem kynnir íslenskan mat og drykk, og „living“ sem kynnir íslenskt atvinnulíf og samfélag.

Í herferðinni talar Eliza Reid, forsetafrú, um jafnrétti á Íslandi og af hverju Íslendingar mælast iðulega hátt á lista yfir hamingjusömustu þjóðir heims, göngugarpurinn Vilborg Arna Gissurardóttir gefur ráð um hvernig á að ferðast á ábyrgan hátt um íslenska náttúru, Ólafur Örn Ólafsson, matgæðingur, segir frá drykkjar- og matarmenningu á Íslandi, Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur, útskýrir norðurljósin, Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, útskýrir hvernig jarðvarmaorka er nýtt á Íslandi, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, verkfræðingur, fjallar um nýsköpun og upplýsingatækni, Georg Halldórsson, matreiðslumaður og kokkalandsliðsmaður, talar um íslenskt gæðahráefni, Svanur Gísli Þorkelsson, leiðsögumaður og aukaleikari í Game of Thrones, gefur ráð um ferðalög á Íslandi og Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codland, talar um ábyrgar fiskveiðar.

Markaðsherferðin er unnin fyrir íslenskt atvinnulíf með það markmið að auka vitund um Ísland í þágu útflutningsgreina og fjárfestinga og er verkefnið unnið í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja. Helstu samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Icelandair, Bláa lónið, Landsvirkjun, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök iðnaðarins sem eru fulltrúar fjölmargra fyrirtækja. Íslandsstofa heldur utan um framkvæmd markaðsverkefnisins sem er unnið undir merkjum Inspired by Iceland.

Hér er hægt að nálgast aðalmyndband herferðarinnar á Facebook og á YoutubeYoutube