Fréttasafn16. maí 2017 Almennar fréttir Framleiðsla

Ný stjórn Ljósmyndarafélags Íslands hefur tekið til starfa

Ný stjórn hefur tekið til starfa í Ljósmyndarafélagi Íslands en félagið sem var stofnað 1926 er félag atvinnuljósmyndara hér á landi. Ný stjórn stefnir að því að efla Ljósmyndarafélag Íslands þannig að það verði félag allra atvinnuljósmyndara á Íslandi en fjöldi atvinnuljósmyndara starfar í dag utan félagsins. 

Nýr formaður félagsins er Sigurður Ólafur Sigurðsson og segir hann miklar breytingar hafa orðið á störfum ljósmyndara á undanförnum árum. „Starfsumhverfið er orðið mjög fjölbreytt og á mörgum sviðum er ljósmyndunin orðin sérhæfð. Tæknin hefur breyst mikið, notkun myndefnis aukist og markaður fyrir myndefni tekið gríðarlegum breytingum. Störf ljósmyndara eru fjölbreyttari en nokkru sinni en eftir sem áður, og ef til vill enn frekar, er þörfin fyrir hendi að til sé öflugt félag atvinnuljósmyndara sem vinnur að sameiginlegum hagsmunum þeirra í síbreytilegu umhverfi. Því stefnir ný stjórn að því að gera Ljósmyndarafélag Íslands að öflugum talsmanni fagsins í góðri samvinnu við stéttina þannig að um verði að ræða félag allra atvinnuljósmyndara. Stjórnin er nú skipuð fulltrúum allra helstu greina innan ljósmyndunar hér á landi.“

Ljósmyndun er löggilt iðngrein og segir Sigurður Ólafur að Ljósmyndarafélag Íslands hafi í áratugi verið faglegur vettvangur ljósmyndara til að hittast og læra hver af öðrum. „Við viljum halda því áfram en jafnframt viljum við að félagið sé félag allra atvinnuljósmyndara á Íslandi.“

Á myndinni er ný stjórn Ljósmyndarafélags Íslands, talið frá vinstri: Guðmundur Skúli Viðarsson, Styrmir Kári Erwinsson, Laufey Ósk Magnúsdóttir, Torfi Agnarsson og Sigurður Ólafur Sigurðsson.