Nýsköpun er miðpunkturinn í starfseminni
GUÐBJÖRG HEIÐA GUÐMUNDSDÓTTIR er framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel. Vegferð alþjóðlega hátæknifyrirtækisins Marels undirstrikar nauðsyn þess að hér á landi sé hlúð vel að nýsköpun. Hjá fyrirtækinu starfar fjöldinn allur af sérfræðingum sem búa yfir gríðarlegri þekkingu og áratugareynslu í sínu fagi. Orðspor Marels er byggt á nýsköpun, framþróun og framboði af hágæðavörum og þjónustu til fyrirtækja í matvælavinnslu; stöðugu uppbroti og endurmati á ríkjandi hugmyndum og háttum til þess að stuðla að sjálfbærni, matvælaöryggi, tæknivæðingu og hagkvæmni í matvælaframleiðslu. Saga félagsins er allt að því ævintýri líkust, en í dag starfa hjá félaginu 6.300 manns í yfir 30 löndum við að þjónusta viðskiptavini í 180 ríkjum og hleypur markaðsvirði fyrirtækisins á hundruðum milljarða íslenskra króna.
Aðgengi að fjármagni og fólki er það sem þarf til að halda úti dýnamísku nýsköpunarumhverfi hér á landi.
Við ráðningu Guðbjargar fyrir tæpum tveimur árum fylgdi sögunni að það ætti að styðja áfram við vöruþróun og nýsköpun í starfi fyrirtækisins hér á landi, en hjá Marel fer um 6% af heildartekjum í nýsköpun og vöruþróun árlega. Það eru engar smá fjárhæðir en á síðasta ári nam fjárfesting Marel í nýsköpun rúmlega 11 milljörðum íslenskra króna. Marel hefur vaxið mikið og hratt en árið 2005 nam velta félagsins 130 milljónum evra samanborið við 1,2 milljarð evra á síðasta ári.
Íslenskt hugvitshús
„Það eru 720 starfsmenn að vinna hjá Marel á Íslandi og af þeim starfa um 200 manns í vöruþróun á einn eða annan hátt. Við höfum mjög skýra stefnu um það hvert Marel stefnir og við viljum vera virkur þátttakandi í samtali við stjórnvöld og við þjóðina,“ segir hún. „Að aflétta þökum á endurgreiðslu á virðisaukaskatti fyrir rannsókna- og þróunarverkefni og auðvelda erlendum sérfræðingum að koma hingað til lands eru dæmi um mikilvægar aðgerðir til að styðja við nýsköpun hér á landi,“ segir Guðbjörg, en hún hefur starfað hjá Marel undanfarin 9 ár og þekkir vel til vöruþróunar fyrirtækisins. Áður vann hún hjá fjárfestingarfyrirtæki, sem hún lýsir sem dýrmætum skóla.
Við þurfum að framleiða matvæli á snjallari, hagkvæmari og sjálfbærari hátt en áður.
Hendum einum þriðja af öllum matvælum
Guðbjörg hefur einnig reynslu af fleiri sviðum innan Marel, en vöruþróunin hefur undanfarin ár átt hug hennar. „Mér finnst vöruþróunin ótrúlega skemmtileg. Eiginlega geggjuð!“ segir Guðbjörg og hlær.
Marel er eins og áður segir leiðandi fyrirtæki í matvælaiðnaði á heimsvísu. Guðbjörg segir nóg um áskoranir í greininni. „Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun að vilja framleiða meira en nokkru sinni fyrr af matvælum fyrir ört vaxandi mannfjölda en á sama tíma viljum við og þurfum við að fara betur með auðlindir jarðarinnar. Eina leiðin til að mæta þessari áskorun er nýsköpun. Við þurfum að framleiða matvæli á snjallari, hagkvæmari og sjálfbærari hátt en áður. Á sama tíma er mikil sóun að eiga sér stað í virðiskeðjunni okkar. Við búum til mat fyrir 11 milljarða manna á heimsvísu en erum bara 7 milljarðar. Það þýðir að við erum að henda einum þriðja af öllum matvælum sem eru búin til í heiminum í dag. Áskoranirnar liggja ekki síður í því að reyna að sporna við þessari sóun,“ útskýrir hún.
„Þetta er það sem við gerum í Marel, við erum að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu. Kröfur viðskiptavina Marels eru alltaf að aukast og það eru áfram sóknarfæri í sjálfvirknivæðingu. Með aukinni sjálfvirknivæðingu nýtist bæði hráefnið og mannauðurinn betur. Við nýtum okkar tækniframfarir til að búa til alhliða lausnir fyrir okkar viðskiptavini og gera þeim kleift að framleiða gæðamatvæli sem eru bæði örugg og hagkvæm.“
Mikil vitundarvakning hefur orðið meðal neytenda á undanförnum árum, ekki síst með tilliti til loftslagsmála. Marel hefur ekki farið varhluta af þessari þróun, en Guðbjörg fagnar henni. „Það er einfaldlega svo að það er krafa fyrir félag eins og okkar, sem er skráð á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði, að vera með sjálfbærnistefnu. Við erum með framsækna stefnu varðandi sjálfbærni og erum að vinna í því á hverjum degi að innleiða hana þvert á alla starfsemi. Við spyrjum okkur spurninga á borð við, hvernig nýtum við aðföng? Hvaða birgja erum við að nota? Hvernig er fótspor framleiðslustöðvanna? Hvað er kolefnisfótspor okkar lausna yfir líftíma þeirra? Hvernig hönnum við lausnir sem nota eins lítið af orku og vatni og mögulegt er? Það eru kannski ekki allir farnir að hugsa svona, en maður veit af stórum fyrirtækjum út í heimi, eins og Costco, sem líta mjög til stefnu fyrirtækja um þessi mál þegar þeir velja sér birgja til að eiga í viðskiptum við,“ segir hún.
Það kostar að vaxa
Aðspurð um nýsköpunarumhverfið hér á landi stendur ekki á svörum frá Guðbjörgu. Hér vantar fjármagn. „Það eru mjög fá fyrirtæki hérna sem eru stór og það er erfitt að fara úr því að vera 10 manna fyrirtæki og komast upp í 50 eða 100 starfsmenn. Og ef þú ætlar að stækka og komast í almennilegan tekjuvöxt og halda kúltúrnum í lagi þá kostar það sitt. Aðgengi að fjármagni og fólki er það sem þarf til að halda úti dýnamísku nýsköpunarumhverfi hér á landi.“
Hún segir umræðuna um nýsköpun alltaf að verða betri, en hún upplifir enn að fólk sé pínulítið hrætt við þróunina. „Eins og það sé bara verið að kasta peningum eitthvað og ekkert fáist fyrir þá. Við erum þvert á móti að skapa tekjur, dýrmæt störf sem oft á tíðum eru vel borguð og eftirsóknarverða vinnustaði og ekki síst, lausnir og þjónustu sem létta einhverjum lífið, eru neytendum til hagsbóta eða leysa jafnvel stóru áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir. Við erum þjóð sem á einfaldlega sögu um að gera vel og geta hlaupið hratt. Ísland er frábært land og heppið með auðlindir sínar; við erum líka skapandi. Við vorum ein fátækasta þjóð á jörðinni fyrir rúmri öld, en skipum nú efstu sætin yfir mestu velmegunina. Við erum fallegt samfélag og hér er mikill jöfnuður og fjölbreytileiki. Við eigum að búa til góðan farveg fyrir alla sköpun því það borgar sig og því það hefur sýnt sig að okkur er treystandi til þess.“
Þrautseigja er málið
Hvað ráðleggur þú ungum frumkvöðlum sem eru að þreifa fyrir sér í nýsköpunargeiranum? „Gefast aldrei upp. Ekki halda heldur að þú vitir allt. Frumkvöðlar eru oft svo mikið framkvæmdafólk, en oft hafa margir sem á undan hafa komið hugsað það sama og geta miðlað einhverju til þín. Ekki gera allt sjálfur. Það skiptir engu máli hvaðan gott kemur. Stundum snýst þetta um ósigra, því hver ósigur færir þig einu skrefi nær sigri. Þrautseigja er algjörlega málið.“
VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir
LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson