Fréttasafn



4. des. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Óásættanlegt eftirlit með iðnaðarlögunum

Eftirfylgni opinberra aðila með iðnaðarlögunum hefur verið með öllu óásættanleg undanfarin ár. Ekkert opinbert eftirlit hefur verið til staðar í þeim tilgangi að hlúa að löggiltum iðngreinum hér á landi og neytendur hlotið skaða af. Eftirlitið hefur þess í stað færst yfir á markaðinn sem hefur eins og stendur fá sem engin úrræði til að stöðva ólögmæta starfsemi ófaglærðra í löggiltum iðngreinum. Þetta kemur fram í umsögn SI um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar regluverks, mál 332. Þar segir jafnframt að samtökin hafi ítrekað þurft að kæra ófaglærða aðila sem gengið hafa inn á svið löggiltra iðngreina til lögreglu en málin gangi hægt og niðurstöður engar. Þá sé einnig nauðsynlegt að endurskoða sektarfjárhæðir við brotum á iðnaðarlögum og búa til sektarramma sem feli í sér raunverulega refsingu við brotum á lögunum en ljóst sé að núverandi refsirammi hafi lítil sem engin varnaðaráhrif. 

Í umsögninni kemur fram að Samtök iðnaðarins ítreka ánægju sína með þá áherslu ríkisstjórnarinnar að auka skilvirkni stjórnsýslunnar og einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings. Samtökin árétta þó mikilvægi þess að samhliða einföldunaraðgerðum sé gripið til aðgerða til að tryggja skilvirkni í eftirfylgni þeirra lagaákvæða sem eftir standa enda vænta fyrirtæki þess að allir starfi eftir sömu leikreglum sem er ein forsenda heilbrigðs markaðar og frjálsrar samkeppni.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.