Fréttasafn



27. nóv. 2015 Iðnaður og hugverk

Össur hlýtur verðlaun fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015

 

Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent í annað sinn í gær við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum. Ríflega 100 tilnefningar bárust dómnefnd sem tilnefndi fimm verkefni sem þóttu sigurstranglegust. Verkefnið sem þótti skara fram úr að mati dómnefndar og hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2015 er Sýningin Eldheimar – gosminjasýning í Vestmannaeyjum.

Í ár var einnig veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2015. Fyrirtækið sem hlaut viðurkenninguna er alþjóðlega heilbrigðistæknifyrirtækið Össur.

Össur hefur allt frá stofnun lagt áherslu á, fjárfest í og skilgreint hönnun sem einn af meginþáttum þróunarferlisins. Þá hefur fyrirtækið hvatt starfsfólk sitt til að keppa stöðugt að framförum og taka áhættu. Árangurinn er óumdeildur.

Hönnunarverðlaun Íslands eru þýðingarmikil fyrir íslenskt hönnunarsamfélag. Þótt vægi hönnunar í menningu okkar, samfélagi og viðskiptalífi sé að aukast er mikilvægt vekja athygli og dýpka skilning á gildi góðrar hönnunar. Sýningin Eldheimar, er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts. 

Að brúa bilið milli hönnuða og framleiðenda  

Málþing um tækifæri í hönnun og framleiðslu á Íslandi var haldið áður en Hönnunarverðlaunin voru veitt. Með breyttum neysluháttum, aukinni áherslu á staðbundna framleiðslu, gagnsæi og gríðarlegri fjölgun ferðamanna eiga sér stað stakkaskipti í íslensku samfélagi. Í þessum vexti felast tækifæri til þróunar vöru og þjónustu. Fjölgun ferðamanna fylgja aukin alþjóðleg samskipti og möguleikar til markaðssóknar og útflutnings.

Sex áhugaverð örerindi voru flutt af þeim Jóel Pálsson, Farmers Market, Páli Kr. Pálssyni, Varma, Guðrúnu Lilju, Bility, Guðmundi Ásgeirssyni, Á. Guðmundsson, Hafsteini Júlíussyni, HAF studio og Garðari Eyjólfssyni, fagstjóra vöruhönnunar hjá LHÍ. Í máli þeirra koma fram samhljómur um mikilvægi þess að hönnuðir og framleiðendur vinni þétt saman frá upphafi og að tækifærin sem felast í íslenskri framleiðslu og hönnun eru óþrjótandi. 

Að loknum erindum var efnt til pallborðsumræðna. 

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins.