Fréttasafn



23. okt. 2018 Almennar fréttir

Ræktun á repju fyrir skipaflota

Sandra Rán Ásgrímsdóttir hjá Mannviti vann að verkefni hjá Skinney-Þinganesi sem hlaut umverfisverðlaun atvinnulífsins í síðustu viku fyrir framtak ársins. Sandra Rán er í stjórn Yngri ráðgjafa sem er deild innan Félags ráðgjafarverkfræðinga sem er aðildarfélag Samtaka iðnaðarins. 

Sandra-MannvitiSandra Rán sem er menntaður sjálfbærniverkfræðingur segir að verkefnið hafi falist í því að koma af stað ræktun á repju í Flatey og nýtingu olíunnar sem íblöndun í skip Skinney-Þinganess til að draga úr losun frá skipaflotanum en hrat og hálmurinn nýtist sem fóður, áburður og undirlag í fjósinu. „Ég fór í upphafi í ákveðna útreikninga til þess að sýna fram á kostnað og ávinning verkefnisins. Við fengum gefins repjuolíu vorið 2017 sem við prófuðum að setja á skip með svona líka góðum árangri. Í framhaldinu var farið í undirbúning og ræktun repju. Nú er repjan við það að verða komin á það stig að hægt verði að þreskja hana og í framhaldinu setja á olíu á skip. Ég er í augnablikinu að vinna greinagerð um umhverfislegan og samfélagslegan ávinning verkefnisins þar sem tekið er tillit til alls ferilsins í ræktuninni, frá gróðursetningu repjunar til bruna hennar á skipavélunum. Mitt hlutverk felst því helst í því að meta hvort og þá hvernig verkefnið stuðlar að aukinni sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins, s.s. samdrátt í losun, umhverfislegan ábata og efnahags- og samfélagsleg áhrif, og hvernig frekari ræktun gæti lagt til loftslagsmarkmiða Íslands og stuðlað að auknu hringrásarkerfi milli sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá höfum við einnig gert grófa kostnaðar-ábata greiningu á metan vinnslu úr þeirri mykju sem fellur til í fjósinu í Flatey svo það verður spennandi að sjá hversu langt þetta verkefni fer,“ segir Sandra Rán. 

Með Söndru Rán í stjórn Yngri ráðgjafa eru Arnar Kári Hallgrímsson hjá EFLU verkfræðistofu sem er jafnframt formaður, Birgir Indriðason hjá VSÓ ráðgjöf, Guðrún Edda Sveinbjörnsdóttir hjá Hnit, Hjörtur Sigurðsson hjá VSB verkfræðistofu, Óttar Hillers hjá Verkís og Rósa Jakobsdóttir hjá Lotu verkfræðistofu. 

Yngri ráðgjafar leggja áherslu á þrjú málefni sem eru menntun og þjálfun, ímynd og nýliðun og nýsköpun. Hópurinn vinnur náið með sambærilegum félögum á öðrum Norðurlöndum að málefnum sem tengjast menntamálum. Þá má nefna að hópurinn heldur úti Instagramsíðu þar sem hver aðildarstofa er með eina viku í senn.

Myndin hér fyrir ofan var tekin við afhendingu viðurkenningarinnar sem fór til Skinney-Þinganess. Sandra Rán Ásgrímsdóttir er önnur frá vinstri, aðrir á myndinni eru talið frá vinstri: Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar-Þinganess, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Jón Bernódusson, Samgöngustofu og Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Hér er hægt að nálgast Facebook og Instagramsíðu Yngri ráðgjafa.