Fréttasafn31. okt. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Rjómabúið Erpsstaðir hlaut Fjöreggið

Rjómabúið Erpsstaðir hlaut Fjöreggið, viðurkenningu Matvæla- og næringarfræðifélags Íslands og Samtaka iðnaðarins, sem afhent var á Matvæladeginum sem fram fór í síðustu viku. Fjöreggið er veitt fyrir lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði og verðlaunagripurinn er glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík. Það var Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, sem afhenti Fjöreggið. Aðrir sem hlutu tilnefningar voru AstaLýsi, samstarfsverkefni Key Natura og Margildis, Efstidalur II, Heilsuprótein, samstarfsverkefni Kaupfélags Skagfirðinga og MS og Matartíminn, vörumerki í eigu Sölufélags garðyrkjumanna.

Í dómnefnd sátu Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem var formaður dómnefndar, Helga Margrét Pálsdóttir, gæðastjóri Ora, Sigrún Hallgrímsdóttir, forstöðumaður eldhúss Landsspítala, og Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís. 

Á ráðstefnu Matvæladagsins var fjallað um matvælastefnu frá sjónarhóli ýmissa hagaðila með pallborðsumræðum í lokin. Í upphafi ráðstefnunnar flutti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarp þar sem hún fór jákvæðum orðum um íslenska matvælaframleiðslu og mikilvægi þess að nýta sem best heimafengin matvæli. Matvæladagurinn var fyrst haldinn árið 1993 og hefur verið árviss viðburður síðan. 

IMG_8604

IMG_8687

IMG_8721