Fréttasafn



7. des. 2018 Almennar fréttir Menntun Nýsköpun

SI aðili að stofnun Auðnu-Tæknitorgs

Auðna-Tæknitorg var opnuð með formlegum hætti í Sjávarklasanum Grandagarði í gær en um er að ræða nokkurs konar tækniveitu sem mun sinna tækni-og þekkingaryfirfærslu úr vísindasamfélaginu í hendur þeirra sem skapa úr þeim verðmæti fyrir samfélagið; frumkvöðla, fjárfesta og atvinnulífið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tengdi saman vísindin og atvinnulífið á stofnfundinum með táknrænum hætti. Samtök iðnaðarins eru meðal stofnaðila og eini fulltrúi atvinnulífs og fjárfesta.

Um er að ræða samvinnu á milli allra háskóla landsins og helstu rannsóknastofnana, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Atvinnulíf og fjárfestar hafa kallað eftir þessari brú á milli vísinda og atvinnulífs og með samhentu átaki allra er Auðna-Tæknitorg orðin sú brú. Hún verður gátt fyrir atvinnulífið inn í vísindasamfélagið og farvegur fyrir uppfinningar og niðurstöður rannsókna út í samfélagið. Markmiðið með stofnuninni er að til verði aukin verðmætasköpun með hjálp vísindanna og þekkingarsamfélag á Íslandi verði eflt. Tækniyfirfærsla fangar hagnýtanlegar niðurstöður vísindasamfélagsins, tryggir hugverkavernd, leiðir verkefni áfram, stuðlar að stofnun sprotafyrirtækja sem byggja á djúpvísindum og gerð nytjaleyfissamninga við atvinnulífið.

Með Auðnu-Tæknitorgi skapast ný tækifæri til samhæfingar, yfirsýnar og að vekja athygli á hagnýtum vísindaverkefnum erlendis. Tækniveitur eru til við flesta háskóla og rannsóknastofnanir erlendis en það þekkist hvergi að ein tækniveita sinni heilu landi eins og markmiðið er með Auðnu-Tækniveitu.

Au-na-stofnfundurFerðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tengdi saman vísindin og atvinnulífið á stofnfundinum með táknrænum hætti. Vinstra megin eru fulltrúar vísindanna og hægra megin eru fulltrúar atvinnulífsins. Þar má sjá Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, en samtökin eru einu fulltrúar atvinnulífs og fjárfesta meðal stofnaðila. 

KRI_audna_181206_009

Au-na-logo

Myndmerki Auðnu-Tæknitorgs byggir á rúninni Óss sem er rún Óðins og stendur fyrir visku, uppsprettu, tengsl, tilurð og sköpun og árósum þar sem ferskvatn mætir hafinu. Allt á þetta vel við fyrirhugaða starfsemi Auðnu-Tæknitorgs sem tengir vísindin við atvinnulífið, fjárfesta og samfélagið til þess að nýsköpun geti átt sér stað. Hægt er að lesa út úr myndmerkinu TTO sem er alþjóðleg skammstöfun fyrir Technology Transfer Office.