Fréttasafn



24. jan. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Styrkir og endurgreiðslur skipta atvinnulífið miklu máli

Í harðri samkeppni fyrirtækja er nýsköpun lykilatriði til að fyrirtæki nái að halda velli, auka verðmæti, bæta framleiðni og tryggja stöðu sína á markaði. Styrkir og endurgreiðslur skipta því atvinnulífið miklu máli. Þetta kom meðal annars fram á fundi sem Samtök iðnaðarins héldu í samstarfi við Rannís í Húsi atvinnulífsins í gær þar sem fjallað var um Tækniþróunarsjóð og skattívilnanir vegna nýsköpunarverkefna. 

Sigurður Björnsson frá Rannís sagði frá Tækniþróunarsjóði sem er opinn sjóður fyrir nýsköpunarverkefni í öllum atvinnugreinum. Hann er samkeppnissjóður sem starfar í nokkrum deildum svo fyrirtæki á svipuðum stað í vaxtarferlinu eru í samkeppni hvert við annað. Fyrirtæki sem er eigandi að rannsóknar- eða þróunarverkefni á rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur allt að 20% af útlögðum kostnaði vegna þessara verkefna. Skila þarf til Rannís upplýsingum um verkefnin sem staðfestir hvort verkefnin uppfylli kröfur fyrir endurgreiðslu. Á fundinum kom fram að endurgreiðslur jukust um nær helming milli áranna 2016-2017 í kjölfar breytingar á reglunum. 

Styrkir og endurgreiðslur hjálpa til við vöxt fyrirtækja

Páll Ragnar Jóhannesson frá Oculis og Stefán Björnsson frá Solid Clouds sögðu frá reynslu sinni af samskiptum við Rannís, gáfu góð ráð og sýndu hvernig styrkir og endurgreiðslur hafa hjálpað til við vöxt fyrirtækjanna. Oculis tók nýverið inn nýtt hlutafé og stefnir á vöxt í fyrirtækinu hérlendis og erlendis. Solid Clouds er eitt fárra fyrirtækja sem hefur nýtt sér skattaafslátt til handa fjárfestum.

Næsti umsóknarfrestur hjá Tækniþróunarsjóði

Næsti umsóknarfrestur hjá Tækniþróunarsjóði er 15. febrúar næstkomandi. Nýjum umsóknum um endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar þarf að skila inn 1. október fyrir yfirstandandi ár og framhaldsumsóknum þarf að skila 1. apríl.

Fundurinn var sendur beint út á Facebook. Hér er hægt að nálgast upptökuna.

Hér fyrir neðan er hægt að nálgast glærur fundarins:

Tækniþróunarsjóður - náðu lengra.  Taeknithrounarsjodur_SI_vor2018

Skattfrádráttur - endurgreiðsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar.  Rannis_Skattur_kynning_SI_2018

 

Fundur2_1516800224007

Fundur3_1516800257469