Fréttasafn11. jan. 2018 Almennar fréttir

Styttist í UTmessuna

UTmessan 2018 verður í Hörpu 2. og 3. febrúar en um er að ræða einn stærsta viðburð ársins í tölvugeiranum. Á UTmessuna sem hefur verið haldin árlega frá árinu 2011 mæta öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins og taka þátt með einum eða öðrum hætti og hvetja þannig fólk til að kynna sér um hvað tölvuiðnaðurinn snýst. Að UTmessunni standa SKÝ, Samtök iðnaðarins, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands. 

UTmessan stendur yfir í tvo dfaga og eru fjölmargir viðburðir. Á föstudeginum 2. febrúar verður ráðstefna og sýning um það helsta sem er að gerast í tölvugeiranum. Hér er hægt að skrá þátttöku á ráðstefnuna. Á laugardeginum 3. febrúar sýna öll helstu tölvu- og tæknifyrirtæki landsins það sem þau hafa fram að færa á sérstakri tölvusýningu. Aðgangur að sýningunni er ókeypis.

Átak er í gangi í fjölmörgum ríkjum Evrópu þar sem fólk er hvatt til að mennta sig í tölvunarfræðum þar sem mikill skortur er á tölvumenntuðu fólki. Það sama á við um hér á landi og er UTmessan stærsti liðurinn í því átaki á Íslandi. Frá því að UTmessan var haldin í fyrsta sinn hefur ásókn í tölvunarfræði og tengdum greinum aukist verulega. Ásamt því hefur vitundarvakning átt sér stað meðal almennings á tölvugeiranum og mikilvægi hans í daglegu lífi.