Fréttasafn



25. okt. 2018 Almennar fréttir Menntun

Þingmenn vilja jafna stöðu sveinsprófs og stúdentsprófs

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram frumvarp sem myndi jafna stöðu sveinsprófs og stúdentsprófs sem inntökuskilyrðis í háskóla. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þótt ýmislegt hafi verið gert sé mikilvægt að taka stærri skref til að efla iðnnám. 

Aslaug-Arna-Sigubjornsdottir_1540481707264Í fréttinni kemur fram að í gær hafi farið fram sérstök umræða á Alþingi um stöðu iðnmenntunar þar sem Áslaug Arna var málshefjandi og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hafi einnig tekið þátt í umræðunni.  

Skilaboð að það loki ekki leiðum að velja iðnnám

„Við þurfum að þora að leggja fjölbreytt mat á nemendurna sem koma úr skólakerfinu okkar og senda krökkum og foreldrum þau skilaboð að það loki ekki leiðum að velja iðnnám. Þetta eru skilaboð sem við verðum að senda því fólk er fast í þessari kreddu, að maður verði að hafa stúdentspróf,“ segir Áslaug Arna í Fréttablaðinu. „Það hefur ýmislegt verið gert til að efla iðnnám en við erum samt ekki að sjá neinar umtalsverðar breytingar á fjölda þeirra sem fara í iðnnám. Við þurfum að ráðast í miklu stærri breytingar. Þótt þetta frumvarp snúi aðeins að þessu eina atriði held ég að það yrði mikil breyting ef við færum að gefa stúdentsprófi og sveinsprófi sama vægi.“ 

Dýrmætt að fá inn í háskólana fólk með fjölbreyttari bakgrunn

Áslaug Arna bendir einnig á í Fréttablaðinu að of miklar skorður séu settar á möguleika fólks til að sækja sér aukna menntun þótt háskólum yrði áfram í sjálfsvald sett að setja sérstakar inntökukröfur í einstaka greinum. „Það mun reynast okkur dýrmætt ef við fáum inn í háskólana fólk með fjölbreyttari bakgrunn.“ Hún segir að hér sé líka um ímyndarvanda að ræða. „Hluti þess vanda er sá að löggjafinn er búinn að ákveða að þetta sé svona. Löggjafinn á ekki að mismuna þessum námsleiðum.“ 

Fréttablaðið, 25. október 2018.