Þurfum fleiri iðn-, verk- og tæknimenntaða
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, flutti ávarp við afhendingu sveinsbréfa sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica síðastliðinn fimmtudag. Sveinsbréf voru afhent í bílgreinum, byggingargreinum, málmiðngreinum og skrúðgarðyrkju. Í ávarpi sínu óskaði Guðrún nýsveinunum til hamingju með áfangann og ekki síst fyrir að hafa valið iðnnám. „Ég vil einnig hrósa foreldrum og forráðamönnum ykkar fyrir að hafa stutt við bakið á iðnaðarmönnum framtíðarinnar. Stuðningur foreldra skiptir gríðarlega miklu máli í öllu námi barna sinna. Verkefni ykkar í framtíðinni verða mörg og krefjandi og það er ykkar að leysa þau. Til þess að íslenskt samfélag haldi áfram að vaxa og dafna þurfum við á fleiri iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki að halda. Haldið áfram að viða að ykkur þekkingu og færni og verið opin fyrir tækifærunum sem leynast þarna úti.“