Tillit tekið til athugasemda SI um breytingar á lögum um þjóðfána
Breyting á lögum um þjóðfána Íslendinga var samþykkt á Alþingi í apríl síðastliðnum. Í breytingunum felst að ekki þarf sérstakt leyfi ráðuneytisins til að nota hinn almenna þjóðfána við markaðssetningu á vöru eða þjónustu.
Samtök iðnaðarins gerðu athugasemd við fyrirliggjandi frumvarp þar sem bent var á ýmsa ágalla frumvarpsins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ákvað að taka tillit til þessara athugasemda og í nefndaráliti segir meðal annars:
„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þegar um er að ræða landbúnaðarhráefni, sem framleidd eru á Íslandi, geri neytendur í vaxandi mæli kröfu um að uppruna þeirra sé getið í merkingum. Þannig geti verið hætta á að neytendur muni álíta það villandi að vörur framleiddar úr innfluttum landbúnaðarhráefnum, t.d. kjöti, mjólk og grænmeti, beri íslenska fánann. Nefndin fellst á nauðsyn þess að bregðast við því og leggur til viðbótarákvæði sem felur í sér undanþágu, þ.e. að vara teljist ekki íslensk ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og er eðlislíkt búvöru, þ.m.t. afurðir eldisfiska, sem er ræktuð hér á landi, vöru sem er framleidd hér á landi á garðyrkjubýli, gróðrarstöð eða garðyrkjustöð, eða nytjastofnum sjávar sem veiddir eru af íslenskum skipum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi. Nefndin fellst einnig á sjónarmið um að gera þurfi greinarmun á vöru sem hönnuð er á Íslandi undir íslensku vörumerki eftir því hvort hún er framleidd hérlendis eða erlendis. Nefndin tekur undir að þótt hvort tveggja megi merkja með fánanum sé mjög mikilvægt að jafnframt komi ætíð fram í merkingu vöru í hvaða landi hún er framleidd. Nefndin telur að slíkt sé til þess fallið að veita neytendum eðlilegar upplýsingar um vöruna. Nefndin leggur einnig til að ráðherra verði falið að útfæra nánar í reglugerð hvað teljist nægileg aðvinnsla, hvað teljist einkennandi hluti vöru og eðlislíkt hráefni og skilgreiningu framleiðslulands.“
Umsögn SI má finna hér