Fréttasafn



29. ágú. 2016 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Tilnefningar fyrir Fjöregg MNÍ

Matvæladagur Matvæla- og næringafræðafélags Íslands (MNÍ) 2016 verður haldinn á Hótel Natura fimmtudaginn 20. október næstkomandi. Áhrif matvælarannsókna í breyttum heimi er yfirskrift ráðstefnu dagsins og verður fjallað um væntanlegar neyslubreytingar á heimsvísu og mikilvægi menntunar og rannsókna í því samhengi. 

Á Matvæladeginu verður að venju veitt viðurkenningin Fjöregg MNÍ fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Fjöreggið, sem er veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins, er íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík. 
 
Öllum er frjálst að tilnefna vörur eða gott framtak fyrirtækja, stofnana eða félagasamtaka sem sýnt hafa frumkvæði og skarað hafa fram úr á matvæla- og/eða næringarsviði og eru þess verðug að keppa um verðlaunin. Mikilvægt er að setja fram rökstuðning með tilnefningunni. 
 
Í flestum atvinnugreinum er verið að vinna áhugaverð og skemmtileg verkefni sem tengjast mat á einhvern hátt. Því hvetjum við alla til að láta vita af því sem vel er gert á þessu sviði og senda inn tilnefningar. 

Tilnefningar þarf að merkja „Fjöregg MNÍ“ og senda á netfangið mni@mni.is ekki seinna en 20. september. Einnig er hægt að senda tilnefningar til Ragnheiðar Héðinsdóttur, forstöðumanns matvælasviðs SI, á netfangið ragnheidur@si.is.