Fréttasafn



8. sep. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi

Vaxandi áhugi á tæknilausnum CRI

Vaxandi áhugi er fyrir tæknilausnum íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) sem hlaut viðurkenningu Vaxtarsprotans fyrir skömmu en velta fyrirtækisins jókst um 78% milli ára. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að verið sé að setja aukna fjármuni í að draga úr losun koltvísýrings um allan heim og CRI sé í forystu á heimsvísu í þróun tækni til nýtingar koltvísýrings við framleiðslu rafeldsneytis og efnavöru.

Þá kemur fram að CRI vinni nú að hönnun verksmiðju samkvæmt samningi við efnafyrirtæki í Kína sem byggð sé á skölun á þeirri tækni sem fyrst hafi verið nýtt í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Verkefnið sé staðsett í Anyang í austurhluta Kína og muni það koma til með að draga úr losun á 160.000 tonnum af koltvísýringi árlega. Heildarfjarfesting í verkefninu nemi um 12 milljörðum króna og gert sé ráð fyrir að gangsetning hefjist á síðari hluta næsta árs. Þá standi viðræður yfir við samstarfsaðila um verkefni í fleiri löndum. Viljayfirlýsing hafi verið undirrituð við samstarfsaðila í Noregi sem snúi að sameiginlegri verkefnaþróun og fjárfestingu í nýrri verksmiðju í norðurhluta Noregs, byggt á tækni CRI. Stefnt sé að fjárfestingaákvörðun fyrir lok næsta árs. Einnig hafi aðilar m.a. frá Ástralíu og Japan gert samninga við CRI um framkvæmd fýsileikakannana.

Í stjórn CRI er Guðmundur Þóroddsson, formaður, Ásgeir Ívarsson, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, Fiona Xiang Fei, Ingólfur Guðmundsson og Laurent Van Wulpen.

Hér er hægt að skoða myndband sem lýsir tækni CRI:

https://www.youtube.com/watch?v=kRa7KpjYP5E