Fréttasafn7. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Veruleg fækkun íbúða í byggingu

Það sem slær mig í þessum tölum er fyrst og fremst að við erum að sjá verulega mikinn samdrátt á fyrstu byggingarstigum þ.e. fram að fokheldu, hann heldur áfram og er að dreifa sér meira út eftir byggingarstigunum en áður var, segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í Morgunblaðinu um niðurstöður nýrrar íbúðatalningar SI.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt talningunni séu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum 4.946 íbúðir í byggingu og að samdráttur íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni mælist um 18% frá hausttalningu SI 2019. Mestur samdráttur eða 41% sé á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu. Leita þurfi aftur til eftirhrunsáranna 2010-2011 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu íbúðarhúsnæðis á umræddu svæði. Hins vegar hafi fullgerðum íbúðum fjölgað umtalsvert á milli ára. Ingólfur segir í fréttinni að þessar niðurstöður gefi vísbendingu um að mun færri fullbúnar íbúðir muni koma inn á markaðinn á næsta og þarnæsta ári og því hafi samtökin lækkað fyrri spá sína úr því að ríflega 2.500 fullbúnar íbúðir verði tilbúnar á næsta ári niður í tæplega 2.000 íbúðir. Síðan megi gera ráð fyrir að fullbúnum íbúðum muni halda áfram að fækka enn meira á árinu 2022 og að á því ári komi um 1.900 fullbúnar íbúðir á markað, sem sé mikil lækkun frá fyrri spá fyrir ári, sem gerði ráð fyrir að um 2.700 íbúðir verði fullbúnar á árinu 2022. ,,Þetta er veruleg breyting frá fyrri framtíðarhorfum, sem á sér stað á sama tíma og maður sér fyrir sér að hagkerfið er þá að taka við sér miðað við þær spár sem hafa verið settar fram að undanförnu. Við stöndum þá væntanlega frammi fyrir því að ójafnvægi sé að koma aftur upp á íbúðamarkaði á næstu tveimur árum líkt og við höfum verið að takast á við á síðustu árum, þar sem uppsöfnuð þörf hefur skapast vegna þess að það hefur verið mun minna byggt heldur en þörf hefur verið á. Það bjó til þann skort sem litaði markaðinn á tímabilinu 2016 til 2019.“

Morgunblaðið, 6. október 2020.

mbl.is, 6. október 2020.

Morgunbladid-06-10-2020