Fréttasafn14. feb. 2020 Almennar fréttir Framleiðsla Starfsumhverfi

Víðtæk efnahagsáhrif ef álverið í Straumsvík lokar

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Morgunblaðinu í dag um áhrif þess ef álverinu í Straumsvík væri lokað og segir Ingólfur að lokun myndi hafa víðtæk efnahagsáhrif á Íslandi. „Bæði mun það draga úr hagvexti og auka atvinnuleysi, sem þegar er mikið.“ Hann segir álverið skapa um 60 milljarða í gjaldeyristekjur og af þeim tekjum fari um 22- 23 ma. kr. í að greiða fyrir innlenda þætti á borð við laun og raforku. „Það er sá hluti sem snýr að innlenda hagkerfinu og myndi hverfa héðan ef álverinu yrði lokað. Áhrif þessa beint og óbeint á landsframleiðslu og atvinnustig yrðu því talsverð.“ Hann segir erfitt að meta á þessum tímapunkti hvort og hversu langan tíma það tæki fyrir Landsvirkjun að finna kaupanda að orkunni og hvert raforkuverðið yrði í þeim samningum ef af yrði. 

Lokun álversins gerir erfiðara að snúa hagkerfinu frá samdrætti yfir í vöxt

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að hagvaxtarhorfur fyrir árið í ár hafa versnað undanfarið, en skv. síðustu spá Seðlabankans verði aðeins 0,8% hagvöxtur í ár og að sú spá hafi birst í byrjun mánaðar, áður en sagt var frá hugmyndum Rio Tinto um lokun og rætist spáin muni landsframleiðsla á mann dragast saman í ár annað árið í röð. „Til að undirbyggja nýja uppsveiflu efnahagslífsins þarf að auka gjaldeyristekjur. Lokun álversins í Straumsvík færi þvert gegn því og myndi gera okkur erfiðara fyrir að snúa hagkerfinu frá samdrætti yfir í vöxt.“ 

Morgunblaðið, 14. febrúar 2020.