21. apr. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Fundur um forvarnir gegn innbrotum á vinnustað

Samtök iðnaðarins héldu vel sóttan rafrænan fræðslufund í morgun fyrir félagsmenn Mannvirkis og Félags vinnuvélaeigenda þar sem fjallað var um forvarnir gegn innbrotum í vinnuvélar og á vinnustaði verktaka og vinnuvélaeigenda. Tilefni fundarins var að töluverð aukning hefur orðið í slíkum afbrotum á síðustu árum hjá félagsmönnum. Markmið fundarins var að veita gagnlegar upplýsingar og koma á framfæri atriðum sem er gott fyrir fyrirtæki að hafa í huga þessu tengt, t.d. þegar kemur að forvörnum, öryggismálum og viðbrögðum þegar innbrot á sér stað.

Á fundinum fjölluðu eftirfaldir sérfræðingar um þessi mál frá ólíkum hliðum og svöruðu spurningum fundargesta:

  • Guðmundur Pétur Guðmundsson frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
  • Ársæll Ársælsson frá embætti tollstjóra
  • Eiríkur Ronald Jósepsson frá Securitas. Hér er hægt að nálgast glærur Eiríks.

Sérfræðingarnir þrír komu á framfæri mörgum mikilvægum og athyglisverðum hugmyndum til að bæta forvarnarvinnu og leiðum til að leysa mál í framtíðinni. Meðal þess voru gæði og staðsetning öryggismyndavéla, lýsing á vinnusvæðum, merkingar og skráning búnaðar og tækja, frágangur búnaðar og tækja og skjót og skýr samskipti við lögreglu þegar innbrot hefur átt sér stað.

Þátttaka á fundinum var mjög góð og myndaðist lífleg umræða meðal fundargesta að erindum loknum. 


Fáum við leyfi þitt til að nota Google Analytics til að safna nafnlausum upplýsingum um notkun þína á þessum vef?

Sjáðu nánar á persónuverndarsíðu okkar hvaða áhrif svar þitt hefur.