Íslenskur hugverkaiðnaður tilbúinn í stórsókn
Ljóst er að atvinnulífið mun þróast hratt og mikið á næstu árum, ekki síst vegna þeirra öru tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað. Spyrja má hvort Ísland muni skipa sér sess með þeim ríkjum sem standa uppi sem sigurvegarar þegar breytingarnar hafa tekið yfir og hvort tækifærið verði nýtt til að auka fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu og útflutningi. Atvinnugreinar sem byggja á hugviti og nýsköpun, tækni og hugverkum, hafa ótakmarkaða möguleika á að vaxa og dafna. Þær eru ekki háðar auðlindum heldur tryggja enn betri nýtingu auðlinda ásamt því að skapa ný verðmæti. Þær styðja við fjölgun vel launaðra sérfræðistarfa hér á landi og gera íslenskt atvinnulíf enn áhugaverðara fyrir framtíðarkynslóðir. Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í grein sinni Stórsókn til framtíðar sem birt er í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag.
Án nýsköpunar verður lítil framþróun
Sigríður segir jafnframt í greininni að ráðherra iðnaðar og nýsköpunar muni kynna fyrstu aðgerðir í átt að því markmiði að gera Ísland að nýsköpunarlandi á Tækni- og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið verður í Hörpu á morgun, fimmtudag. Þær aðgerðir séu í þágu samfélagsins alls, því án nýsköpunar verði lítil framþróun. Þar með sé ekki sagt að spjótin standi eingöngu á stjórnvöldum en þau geti þó sent skýr skilaboð um hvert við stefnum og fylgt því eftir með skilvirkri og hvetjandi löggjöf og umgjörð um þennan málaflokk. Þá kemur fram að á þinginu á morgun verði ljósi varpað á þær atvinnugreinar sem byggja á hugviti og tækni, þær séu flestar á upphafsmetrunum ef miðað sé við aðrar rótgrónari atvinnugreinar á Íslandi en að íslenskur hugverkaiðnaður sé tilbúinn í stórsókn og hafi margt fram að færa til að efla og bæta lífskjör hér á landi til framtíðar.
Hér er hægt að lesa grein Sigríðar í heild sinni.