Fréttasafn



3. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Skortur á íbúðum heftir vöxt

Hagvöxtur síðustu missera hefur að miklu leyti verið borinn uppi af erlendu vinnuafli enda innlent vinnuafl nánast fullnýtt. Vaxandi skortur á íbúðum hefur hins vegar heft vöxt í þessum mikilvæga þætti efnahagsframvindunnar og gert hann mun kostnaðarsamari. Þetta skrifar Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í grein sinni segir Ingólfur að á árinu 2017 hafi flutt metfjöldi erlends vinnuafls til landsins en þjóðinni fjölgaði um ríflega 10 þúsund og af því voru 8 þúsund erlendir ríkisborgarar. 

Hagstjórnarmistök ríkis og sveitarfélaga að hafa ekki tryggt nægt framboð nýrra íbúða

Hann segir að sveigjanlegur vinnumarkaður vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu sé mikill kostur og ekki síst í jafn sveiflukenndu hagkerfi og hinu íslenska en að þessi sveigjanleiki nýtist hins vegar ekki ef ekki er til íbúðarhúsnæði fyrir fólk til að búa í. Ingólfur segir að það séu hagstjórnarmistök ríkis og sveitarfélaga að hafa ekki tryggt nægt framboð nýrra íbúða í þessari efnahagsuppsveiflu. 

Vantar 45 þúsund nýjar íbúðir fram til 2040

Þá kemur fram að byggja þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir fram til ársins 2040 en það mat byggi á m.a. á mannfjöldaspá Hagstofunnar, væntanlegrar lýðfræðilegrar þróunar og mati á uppsafnaðri þörf fyrir íbúðir eftir lítið framboð á síðustu árum. Í greininni segir að þetta verkefni þurfi að skipuleggja og að því þurfi að koma m.a. sveitarfélög, stjórnvöld og iðnaðurinn ásamt fólkinu í landinu. 

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.