Fréttasafn8. jan. 2018 Almennar fréttir

Verða að vera ákjósanleg skilyrði fyrir fyrirtæki til vaxtar

Ísland á í harðri samkeppni við önnur lönd um atvinnuuppbyggingu og hæft starfsfólk. Við verðum að sjá til þess að á Íslandi séu ávallt hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir fyrirtæki til vaxtar. Þannig byggjum við upp fjölbreytt atvinnulíf með fjölbreyttum störfum sem aftur leiðir til þess að hér getum við skapað það velferðarríki sem við viljum búa í. Þetta kemur fram í grein Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, í Morgunblaðinu um helgina en yfirskrift greinarinnar er Ísland í fremstu röð

Guðrún segir í greininni að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á bætta samkeppnishæfni landsins og hafi talað fyrir umbótum í menntamálum og nýsköpun, uppbyggingu innviða landsins og bætt starfsumhverfi fyrirtækja. „Atvinnulífið þarf á vel menntuðu og hæfu starfsfólki að halda. Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki með iðn-, verk- og tæknimenntun. Ef okkur tekst ekki að laða fleira fólk í iðngreinar mun samkeppnishæfni okkar skerðast verulega og hætta á að við drögumst aftur úr, verðmætasköpun verði minni og lífsgæði ekki þau sömu og ella gæti orðið. Er það von mín að nú sé að hefjast sókn með aukinni umræðu um þessi mál, ekki síst í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“ Hún segist hafna því algerlega að iðnnám sé með einhverjum hætti óæðra öðru námi og það sé nauðsynlegt að breyta fordómum gagnvart iðnnámi. 

Endurskoðun á hlutverki kjararáðs blasir við

Í niðurlagi greinarinnar segir Guðrún að blikur séu á lofti varðandi endurskoðun kjarasamninga og það sé einlæg von hennar að takist að viðhalda þeim góða kaupmætti sem tekist hefur að skapa hér á undanförnum misserum. „Það er eitt af stóru verkefnum nýs árs og raunar forsenda þess að leggja grunn að frekari stöðugleika. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki gengið á undan með góðu fordæmi og endurskoðun á hlutverki kjararáðs blasir við á árinu. Hjá Samtökum iðnaðarins tökum við fagnandi á móti nýju ári með öllum þeim áskorunum sem árið mun færa okkur. Samtökin hafa sjaldan verið öflugri og metnaður stjórnar og starfsmanna mikill fyrir öflugri iðnaði, umbótum sem bæta hag fólks og fyrirtækja og tryggja það að Ísland verði í fremstu röð.“

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.