Fréttasafn



22. okt. 2015 Iðnaður og hugverk

Innkaupsverð er ekki það eina sem skiptir máli við val á birgjum

Fundaröð um framleiðni

Þegar aðfangastjórnunarkerfi eru tekin í notkun eykst einbeitni starfsfólks við að vanda til allra upplýsinga sem kerfin nota og þetta tvennt í sameiningu skilar árangri. Þetta var samdóma álit þriggja frummælenda á fjórða fundi fundaraðar Samtaka iðnaðarins um framleiðni þar sem fjallað var um áskoranir í aðfangastjórnun.

Erindi fluttu Haukur Þór Hannesson hjá AGR Reynd, Gunnlaugur Einar Briem hjá Ölgerðinni og Hafþór Úlfarsson hjá Sláturfélagi Suðurlands.

AGR Reynd þróar meðal annars kerfi til að stýra aðföngum. Viðskiptavinir þeirra skipta hundruðum út um allan heim. Þar á meðal eru margir íslenskir heildsalar, smásalar og framleiðslufyrirtæki. Í máli Hauks kom fram að þrátt fyrir að góð kerfi til að stýra aðföngum séu mikilvæg skiptir ekki síður máli að ferlið sé vel skilgreint, þ.e.a.s. hver á að gera hvað og hvenær. Gögnin sem fara inn í kerfið ráða miklu um þær spár sem koma út. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að innkaupsverð er ekki það eina sem skiptir máli þegar birgjar eru valdir. Ýmsir aðrir þættir hafa áhrif, s.s. afhendingartími, afhendingaröryggi, verðsveiflur, rekstur vöruhúss og fleira. Það getur verið hagkvæmara að skipta við birgja sem eru nær landfræðilega vegna styttri afhendingartíma sem þýðir minna birgðahald.

Gunnlaugur Briem hjá Ölgerðinni kynnti fyrir fundargestum þær áskoranir sem að Ölgerðin stendur frammi fyrir í aðfangastjórnun og hvaða aðferðir eru notaðar til að takast á við þær. Ölgerðin er með fjölbreytta starfsemi í öllum helstu flokkum matvörumarkaðarins og er umfang innkaupa töluvert. Gunnlaugur lagði áherslu á mikilvægi þess að halda vel utan um öll gögn og passa að uppfæra allar upplýsingar um leið og breytingar verða. Ölgerðin vistar allar grunnupplýsingar á einum stað og önnur kerfi sækja gögn þangað, þ.m.t. kerfi fyrir innkaup og söluspár. Það fyrirbyggir misræmi milli kerfa. Innkaupatillögur verða aldrei betri en gögnin sem þær byggjast á sagði Gunnlaugur. Reglulegar mælingar og stöðugar umbætur skila árangri ekki síður en fullkomin áætlanakerfi.

Hafþór Úlfarsson lýsti viðfangsefnum Sláturfélags Suðurlands á sviði aðfangastjórnunar. Þar standa menn frammi fyrir tiltölulega flóknum rekstri. Vörunúmer eru mörg og grunnhráefni þess eðlis að erfitt er að nálgast þau eftir hentugleika. Sem dæmi nefndi hann lambakjöt sem fellur allt til á rúmlega tveggja mánaða tímabili í september og október þannig að gera þarf framleiðsluspár allt að 12 mánuði fram í tímann. Einnig eru sumar vörur árstíðabundnar, eins og þorramatur en auk þess er framleiðsluferlið mjög langt þannig ekki er hægt að bregðast við aukinni eftirspurn með stuttum fyrirvara. Ýmsir þættir hafa því áhrif á gæði áætlana.