Fréttasafn2. jún. 2016 Orka og umhverfi

Ný greining á raforkumarkaðnum á Íslandi kynnt

Hagfræðingurinn Lars Christensen hefur unnið ítarlega skýrslu um íslenskan raforkumarkað að beiðni Samtaka iðnaðarins. Lars kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á vel sóttum fundi í morgun. Heiti skýrslunnar er Our Energy 2030 en þar er að finna greiningu á raforkumarkaðnum á Íslandi, samkeppnishæfnin skoðuð og rýnt í helstu áskoranir sem framundan eru.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Lars þörf á því að samkeppni verði raunveruleg á íslenskum orkumarkaði. „Það er ekki líklegt að það geti orðið nema Landsvirkjun, sem framleiðir um 70% alls rafmagns í landinu, verði skipt upp í smærri einingar. Því gæti reynst heppilegt að selja ákveðnar virkjanir út úr fyrirtækinu áður en það verður selt. „Umræðan hér á Íslandi hefur að undanförnu snúist um gagnsæi og í raun skort á því. Hér eru fáir en mjög stórir aðilar sem hafa afgerandi áhrif á mótun samfélagsins. Landsvirkjun er þar á meðal. Það þarf að huga að gagnsæi og samkeppnissjónarmiðum á orkumarkaði eins og annars staðar. Það er nauðsynlegt með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Þess vegna vísar heiti skýrslunnar til orkunnar okkar, ekki orku ríkisins eða einhverra annarra, til dæmis orkufyrirtækjanna,“ segir Lars.

Hann segir að aukin samkeppni á markaðnum, sem tryggi sem lægstorkuverð, sé til lengri tíma litið til hagsbóta fyrir almenning í landinu þar sem lágt orkuverð auki samkeppnishæfni landsins. Þá segir hann mikilvægt að aðskilja fjárhagsleg tengsl Landsvirkjunar og Landsnets. Ekki gangi lengur að fyrrnefnda fyrirtækið standi undir stórum hluta fjármögnunar þess síðarnefnda. Landsnet sé að öllu óbreyttu tilbúið til að sækja sér lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Í niðurstöðu skýrslunnar varpar hann fram þeirri hugmynd varpar hann einnig fram þeirri hugmynd að hagnaðurinn af sölu Landsvirkjunar verði lagður í sérstakan auðlindasjóð í eigu þjóðarinnar. Arður sem greiddur verði út úr honum muni hins vegar ekki renna í ríkissjóð heldur verði greiðslum úr honum dreift jafnt á alla Íslendinga í formi peningagreiðslna. Segir hann að sækja megi í reynsluna af slíkum sjóði í Alaska, ef þessi leið verði farin (Morgunblaðið, 2.6.2016).

Hér má nálgast skýrsluna á PDF formi.