Fréttasafn



24. apr. 2018 Almennar fréttir Menntun

Stelpur og tækni verður 3. maí

Verkefnið Stelpur og tækni verður 3. maí næstkomandi þegar um 750 stelpum úr 9. bekkjum grunnskóla er boðið í Háskólann í Reykjavík og fjölmörg tæknifyrirtæki. Að verkefninu standa Háskólinn í Reykjavík, Ský og Samtök iðnaðarins. Það fór upphaflega af stað með styrk úr framkvæmdasjóði jafnréttismála og hefur nú hlotið styrk úr samfélagssjóði Alcoa. Markmiðið er að vekja áhuga stelpna á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn. 

Á deginum eru haldnar vinnusmiðjur í HR í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR, og kennara tölvunarfræðideildar og tækni- og verkfræðideildar. Viðfangsefnin eru af ólíkum toga, til dæmis kynnast þær forritun og gerð vefsíðu með tungumálum vefhönnunar, HTML og CSS. Í ár verður meðal annars líka boðið upp á vinnusmiðju um uppbyggingu tölvuleikja og brotaþol beina. Eftir að vinnustofunum lýkur eru tæknifyrirtæki heimsótt þar sem gefin er innsýn í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi. Konur sem starfa hjá fyrirtækjunum hafa jafnframt deilt reynslu sinni.

Alþjóðlegt verkefni

Sambærilegur dagur, „Girls in ICT Day“, er haldinn víða um Evrópu á hverju ári og er styrktur af International Telecommunication Union (ITU) og Evrópusambandinu í tengslum við Digital Agenda-áætlunina.