Fréttasafn27. mar. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

42% færri íbúðir á fyrstu byggingarstigum

Í Morgunblaðinu í dag fjallar Baldur Arnarson, blaðamaður, um nýja talningu Samtaka iðnaðarins sem leiðir í ljós verulegan samdrátt í smíði íbúða. Í fréttinni kemur fram að 42% færri íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum á höfuðborgarsvæðinu en í talningu samtakanna vorið 2019. Alls voru 11% færri íbúðir í smíðum en í fyrravor. Til samanburðar mældist 22% aukning í talningunni í fyrra. Þetta er mesti samdráttur frá árunum 2011-12. 

Þar segir að vegna þessa hafa SI endurmetið spá sína um fjölda fullgerðra íbúða á höfuðborgarsvæðinu og  áætli nú að um 2.100 íbúðir verði fullgerðar í ár, en það sé 30% samdráttur frá spánni í mars 2019. Húsnæði telst vera í byggingu þegar sökkull hefur verið reistur. Þá kemur fram að samdrátturinn sé enn meiri utan höfuðborgarsvæðisins eða 44% færri íbúðir eru komnar að fokheldu en í fyrra. 

Tryggja þarf stöðuga uppbyggingu

Í fréttinni er rætt við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir nokkrar ástæður fyrir samdrættinum. Í fyrsta lagi markaðsbrestur á íbúðamarkaði, dýrari íbúðir séu að koma á markað en kaupendur sækist eftir. Fyrir vikið geti verktakar setið uppi með óseldar íbúðir. Það geti aftur tafið ný verkefni. Í öðru lagi hafi fjármálakerfið haldið að sér höndum og gert auknar kröfur um eigið fé í verkefnum. Í þriðja lagi hafi ákvarðanir sveitarfélaga mikla þýðingu. Þau hafi enda í gegnum skipulagsmálin mikið um það að segja hvað er byggt og hvar. Í fjórða lagi hafi óvissan í hagkerfinu farið vaxandi síðustu 12-18 mánuði. „Ríki, sveitarfélög og iðnaðurinn þurfa að taka höndum saman til að tryggja að stöðug uppbygging sé til staðar á öllum tímum. Samtök iðnaðarins hafa átt góð samtöl við Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og er ég vongóður um að það leiði til nýrra uppbyggingarverkefna.“

Færri íbúðir á markað á næstu árum vegna samdráttar

Sigurður tekur fram í fréttinni að íbúðatalningin hafi verið gerð áður en kórónuveirufaraldurinn breiddist út til Evrópu og Íslands. „Stóru tíðindin eru verulegur samdráttur í byggingum upp að fokheldu, þ.e.a.s. upp að fyrstu byggingarstigum, eða rúmlega 40%. Það eru afgerandi skilaboð um stöðuna. Þótt sjá megi krana víðs vegar um bæinn eru það fyrst og fremst verkefni sem fóru af stað fyrir löngu.“ Í fréttinni kemur fram að merki um samdrátt í byggingariðnaði hafi byrjað að birtast í fyrra. Sala á sementi og steypustyrktarjárni hafi dregist saman, VSK-velta sömuleiðis og launþegum fækkað. Vegna þessa samdráttar muni færri íbúðir koma á markað á næstu árum. Fyrir vikið kunni að skapast skortur á íbúðum eftir 3-5 ár. 

Staða fyrirtækja á byggingarmarkaði er misjöfn

Sigurður telur aðspurður að einhverjir félagsmenn SI muni þurfa á aðstoð að halda. „Staða sumra er góð og verkefnastaðan líka. Staða fyrirtækjanna er þó misjöfn. Við höfum í þessu sambandi mikið horft á tillögur félagsmálaráðherra um svokölluð hlutdeildarlán.“ Vísar Sigurður til áforma um að ríkið leggi fyrstu kaupendum til eigið fé vegna kaupa á nýbyggðum íbúðum. Rætt hefur verið um fimmtung af kaupverði í þessu samhengi. Telur Sigurður að lánin muni skapa hvata fyrir verktaka til að auka framboð á markaðnum. 

Byggðar verði fleiri hagkvæmar íbúðir

Þá kemur fram í fréttinni að flest byggingarefni á Íslandi séu innflutt og því sé spurning hvaða áhrif gengislækkunin undanfarið og mögulega minnkandi kaupmáttur vegna kreppunnar muni hafa á markaðinn. Að mati Sigurðar mun þessi þróun leiða til þess að byggðar verði hlutfallslega fleiri hagkvæmar íbúðir. Það verði enda minni eftirspurn eftir dýrari íbúðum. Hann rifjar upp að miklar sveiflur hafi orðið í íslenskum byggingariðnaði síðustu áratugi. Því sé viðbúið að uppsveiflan í greininni verði meiri en í hagkerfinu almennt, þegar hjól efnahagslífsins fara að snúast á ný. Alls eru tæplega 3.000 íbúðir fokheldar og lengra komnar og er það fjölgun um 22% frá vortalningunni 2019. Hefur ekki verið flutt inn í um 720 þeirra íbúða en fjöldinn þykir benda til lengri meðalsölutíma en áður.

Morgunblaðið / mbl.is, 27. mars 2020.

Morgunbladid-27-03-2020