50 milljóna króna styrkur fagháskólanámssjóðs
Fagháskólanámssjóður ASÍ, BSRB og SA hefur ákveðið að styrkja þróun þriggja verkefna á sviði fagháskólanáms í samræmi við samkomulag við mennta- og menningarmálaráðuneytið frá síðasta ári. Verkefnin sem styrkt verða eru fagháskólanám í iðn-, verk- og tæknigreinum við Háskólann í Reykjavík, fagháskólanám í verslunarstjórnun sem kennt verður í samstarfi Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst og fagháskólanám í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða við Háskólann á Akureyri. Heildarfjárhæð styrkja eru 50 milljónir króna.
Fagháskólanám í iðn-, verk,- og tækninámi
Háskólinn í Reykjavík, Tækniskólinn, IÐAN og Rafiðnaðarskólinn hafa samið um samstarf varðandi þróun fagháskólanáms fyrir iðnaðarmenn í byggingariðngreinum, rafiðngreinum og vél-, málm- og bílgreinum. Verkefnið snýst í meginatriðum um að rýna og þróa nám ætlað iðnsveinum, þ.e. iðnmeistarapróf, iðnfræði og tæknifræði, með það fyrir augum að þessar námsbrautir myndi eins góða samfellu og kostur er og uppfylli þarfir atvinnulífsins og væntingar menntamálayfirvalda, vinnumarkaðar og skóla um þekkingu, leikni og hæfni.
Markmið verkefnisins er að bæta gæði iðn- og tæknináms og stækka verulega þann hóp sem sækir iðnnám, samhliða því að fjölga verulega þeim sem bæta hagnýtu framhaldsnámi við iðnnám til sveinsprófs með því að þróa aðgengilegar leiðir til að auka flæði milli skólastiga samhliða bættum gæðum náms. Með þessu verði komið til móts við þarfir atvinnulífsins fyrir vel menntað fólk sem hefur verknám að baki. Verkefnið er þróunarverkefni, einskorðað við iðnmenntun í byggingar-, málm-, vél-, bíl- og rafiðngreinum og nám á háskólastigi sem hentar í framhaldi af iðnnámi í þeim greinum. Um leið er stefnt að því að verkefnið geti orðið fyrirmynd sem hægt verði að yfirfæra á aðrar iðngreinar. Einnig verða þróaðir og skilgreindir ferlar svo að unnt verði fyrir háskóla að votta háskólaeiningar (ECTS) sem kenndar yrðu af framhaldsskólum og/eða menntaveitum iðnaðarins og greind tækifæri til raunfærnimats fyrir starfandi iðnaðarmenn inn í iðnfræði og tæknifræði og þróuð aðferðafræði fyrir slíkt.
Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.
Fagháskólanám í verslunarstjórnun
Háskólinn í Reykjavík, Bifröst og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks hafa samið um að þróa sameiginlega fagháskólanám sem byggir á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra. Markmið verkefnisins er að bæta þekkingu í verslunarstjórnun með því að þróa og bjóða upp á námsleið á fagháskólastigi fyrir verslunarstjóra og að opna dyr fyrir þá sem mennta sig í verslun og þjónustu og vilja halda áfram í háskólanámi.
Námið verði kennt með vinnu og á að taka tvö ár í dreifnámi. Það byggi að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræðum við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunarinnar í huga. Námið verði metið til eininga til áframhaldandi náms í viðskiptafræði til BS gráðu við Háskólann á Bifröst og Háskólann í Reykjavík og skólarnir munu þróa ferli til að meta gagnkvæmt háskólaeiningar (ECTS) innan verkefnisins, óháð því hvor skólinn kennir einstök námsskeið og mat á náminu inn í BS gráðu í viðskiptafræðum. Einnig verður þróuð aðferðafræði fyrir mat á fyrra námi og raunfærnimat verslunarmanna inn í nám í háskólastigi og boðið upp á nám í grunngreinum fyrir þá sem þurfa á slíku að halda til að styrkja sig fyrir háskólanám.
Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.
Fagháskólanám í öldrunarhjúkrun fyrir sjúkraliða
Háskólinn á Akureyri og Sjúkraliðafélag Íslands hafa samið um að þróa sameiginlega fagháskólanám sem byggir á hæfnigreiningu fyrir starf á 4. þrepi í öldrunarhjúkrun fyrir starfandi sjúkraliða í samstarfi við heilbrigðisstofnanir. Námið hefur þann tilgang að auka enn frekar hæfni sjúkraliða til að sinna öldruðum einstaklingum og vinna að heilsueflingu og forvörnum meðal aldraðra auk þess að auka sjálfstæði og ábyrgð sjúkraliða innan og utan stofnana og að svara þörfum fyrir aukna sérþekkingu. Jafnframt er það markmið verkefnisins að opna dyr fyrir sjúkraliða í háskólanám.
Lengri lífaldur einstaklinga og auknir meðferðarmöguleikar margra langvinnra sjúkdóma hafa leitt til breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar. Fleiri lifa nú á tímum með langvinna flókna sjúkdóma og fötlun. Afleiðingar þessa eru miklar breytingar á heilbrigðiskerfinu hér á landi sem erlendis, sem hafa kallað á enn auknar kröfur um menntun, sérhæfingu, samskiptahæfni, sveigjanleika, jafnrétti og sköpun.
Miðað er við að námið verði kennt með vinnu á tveimur árum og skiptist í almenna áfanga á heilbrigðissviði og sérhæfða áfanga á öldrunarsviði. Kennsla og verkefnavinnsla taki mið af miklu hópstarfi, umræðum og raunhæfri verkefnavinnslu út frá reynslu og tengt störfum nemenda í hinum ýmsu stofnunum innan heilbrigðiskerfisins.
Verkefnið hefur hlotið vilyrði um styrk úr fagháskólanámssjóði ASÍ, BSRB og SA ásamt því að sótt hefur verið um framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til þróunar námsins.