80% bókatitla prentaðir erlendis
Heildarfjöldi prentaðra bókatitla sem koma fram í Bókatíðindunum í ár er 614 og þar af eru 490 eða 80% þeirra prentaðir erlendis. Í fyrra voru 402 bókatitlar prentaðir erlendis eða 67%. Það er Bókasamband Íslands sem hefur kannað prentstað íslenskra bóka sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2018. Prentuðum bókatitlum fækkar um 10 milli ára en þeir voru 604 á síðasta ári.
Það eru 124 bókatitlar prentaðir innanlands og fækkar þeim um 78 frá fyrra ári og sem hlutfall af heild dregst það saman milli ára um rúmlega 13%. Hlutfallið er 20% í ár en í fyrra var hlutfallið 33%.
Þegar horft er til einstakra flokka bóka eru barnabækur sá flokkur þar sem hlutfallslega fæstar bækur eru prentaðar á Íslandi en hlutfallslega flestar bækurnar sem eru prentaðar hér á landi eru í flokki fræðibóka, bóka almenns efnis og listabóka.
Fræðibækur, bækur almenns efnis og listir eru alls 161. 63 (39%) prentuð á Íslandi og 98 (61%) prentuð erlendis.
Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 195. 37 (19%) prentuð á Íslandi og 158 (81%) prentuð erlendis.
Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 61. 11 (18%) prentuð á Íslandi og 50 (82%) prentuð erlendis.
Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 197. 13 (7%) prentuð á Íslandi og 184 (93%) prentuð erlendis.
Prentun í Evrópu og Asíu
Eftirfarandi sýnir hvar bækurnar eru prentaðar 2017 og 2018:
Árið 2018 Fjöldi titla %
Ísland 124 20,2
Evrópa 412 67,1
Asía 78 12,7
Samtals 614 100%
Árið 2017 Fjöldi titla %
Ísland 202 33,4
Evrópa 331 54,8
Asía 71 11,8
Samtals 604 100%
Markaðshlutdeild erlendrar bókaprentunar sveiflast með raungengi krónunnar
Markaðshlutdeild erlendrar bókaprentunar hefur sveiflast með raungengi krónunnar undanfarna áratugi líkt og sést á myndinni hér fyrir neðan. Mikil hækkun á raungengi krónunnar sem til er komin vegna mikillar hækkunar innlendra kostnaðarþátta framleiðslunnar, mælt í erlendri mynt, hefur á síðustu tíu árum dregið verulega úr hlutfalli þeirra bóka sem prentaðar eru hér á landi. Endurspeglar það að iðnaðar sem helst keppir við erlendan, líkt og bókprentunin, hefur versnað umtalsvert í þeirri uppsveiflu sem staðið hefur síðustu ár. Miklar sveiflur í starfsumhverfi fyrirtækja hér á landi draga úr uppbyggingu og verðmætasköpun og kemur niður á lífsgæðum litið til lengri tíma.