Á þessari öld hugsum við skemmra fram í tímann
Það má eiginlega segja að með tilkomu ÍSAL hafi verið rennt einni stoð í viðbót undir atvinnulífið og efnahag Íslands. Þetta segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, í samtali við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í samtali á Iðnþingi 2025. Hún segir að þar með hafi orðið til ný og stór útflutningsgrein, grein sem sé ekki háð árstíðasveiflum eins og greinarnar sem voru fyrir og það hafi orðið ákveðin tímamót í hagsögunni því eftir 1970 hafi orðið til ný hagvaxtarbraut ef tekið sé tillit til landsframleiðslu á mann. „Þannig að það varð alveg skörp skil og breyting og við sjáum það líka ennþá að það eru miklar og stöðugar útflutningstekjur. Orkusækinn iðnaður er með 23% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Þannig að það er gríðarlega mikið. Mér finnst líka svona umhugsunarvert ef við lítum til baka til þess að ÍSAL var stofnað, hvað það var mikil framsækni og þor sem einkenndi þann tíma að menn skyldu leggja út í þessar miklu framkvæmdir. Og mér finnst svona svolítið súrt að hugsa til þess að það tilheyrir svolítið öldinni sem leið. Á þessari öld, hugsum við svona í skemmra fram í tímann. Það eru ekki teknar svona ákvarðanir sem að hafa svona mikil áhrif langt fram í tímann til, til aukinnar hagsældar og þá á ég bæði við stjórnvöld og atvinnulíf og kannski við sjálf í okkar prívat lífi erum að hugsa almennt til skemmri tíma. Það er kannski ekki vænlegt til árangurs, þannig að við ættum kannski aðeins að athuga okkar ganga með það.“
Rafmagnið úr Búrfelli og Þjórsá er enn í fullri notkun í Evrópu
Sigurður segir að á sama tíma og ÍSAL hafi orðið til hafi Landsvirkjun verið stofnuð til þess að geta þjónustað fyrirtækið. Rannveig segir að Landsvirkjun sé stofnuð upphaflega til þess að virkja Þjórsá við Búrfell og leiða raforkuna til Straumsvíkur, fyrir álverið. „Og það var mjög mikil þörf á aukinni raforku á þessu svæði öllu. Þannig að það kom sér mjög vel. En það kom líka skýrt fram á ársfundi Landsvirkjunar að með stofnun álversins í Straumsvík var stoð Landsvirkjunar reist. Þannig að þetta eru fyrirtæki sem hafa nú, svona unnið saman í allmörg ár. Og þarna var hugsað um langtímahagsmuni þjóðarinnar, og það er líka má hugsa það í svona samhengi dagsins í dag hvað þetta hefur komið svona hringrásarhagkerfinu vel í Evrópu að álið sem að flutt hefur verið til Evrópu er enn í notkun. 75% af álinu er enn í fullri notkun þar. Og það kostar aðeins 5% af orkunni til að bræða það upp aftur og nýta það. Þannig að rafmagnið úr Búrfelli og úr Þjórsá er enn í fullri notkun niðri í Evrópu.“
Stóriðjan byggði upp raforkukerfið á landinu
Þegar Sigurður víkur talinu að innviðunum og segir að við séum náttúrlega mjög heppin og njótum þess hér á þessu svæði landsins að vera með öflugasta raforkukerfi landsins sem að stafi af þessari uppbygging á sínum tíma segir Rannveig að það hafi komið fram á ársfundi Landsvirkjunar að stórnotendur á Íslandi hafi fjármagnað raforkukerfið hér á landi. „Og ég get nú sagt frá því að ég á í barnsminni, á jólunum varð alltaf rafmagnslaust. Þannig að ég hélt að kertaljós og köld sósa væri svona eitthvað sem tilheyrði jólunum. Hef komist að því að það er nú ekki alveg nauðsynlegt. Þetta var mikil þörf á þessum innviðum og við búum að því enn þann dag í dag að stóriðjan byggði upp raforkukerfið á landinu. Og ég get náttúrlega ekki því miður tjáð mig um raforkuverðið, því miður ríkir trúnaður um verðið. En ég get þó sagt að það kom fram á ársfundi Landsvirkjunar að Landsvirkjun hefur skilað hundrað fimmtíu og tveimur milljörðum inn í íslenskt þjóðarbú í formi arðgreiðslna og tekjuskatts á síðustu fjórum árum. Og það munar um minna, þó ég segi ekkert um verðið.“
Þekkingin er orðin að útflutningsgrein í hugverkaiðnaði
Rannveig segir jafnframt að það séu ýmis fleiri áhrif sem þetta hafi haft á samfélagið. Hún segir að ólíkt því sem var á upphafsárunum þá kunnum við í dag sjálf að byggja álvers- og raforkumannvirkin, bæði virkjanirnar og línurnar. „Og við erum sjálfbær eins og í Straumsvík með starfsmenn. Við þurfum auðvitað sérfræðinga svona öðru hvoru, en við erum sjálfbær með starfsmenn.“ Hún segir að þekkingin sé orðin að útflutningsgrein, sem er verkfræðiþjónusta og ráðgjöf sem flokkist til sem hugverkaiðnaður í dag. „Þannig að álverin og þessi tilkoma stóriðjunnar á Íslandi hefur haft gríðarleg áhrif þarna. Og hefur líka haft áhrif mikið á iðn- og tæknimenntun í landinu og fjölgar mjög í þeim fögum. Og svo má náttúrulega nefna Stóriðjuskólann sem er innan stóriðjunnar. Við stofnuðum hann í lok síðustu aldar, og hann hefur sem sagt starfað í tuttugu og átta ár í Straumsvík. Og það er ánægjulegt að það hefur svona breiðst út innan áliðnaðarins á Íslandi. Þó að þessir skólar séu mjög sjaldgæfir í útlöndum og erlendir aðilar koma mikið til að skoða þetta og kynna sér skólann hjá okkur. En þá hefur þetta breiðst út hér innanlands og fyrirtækjaskólar líka. Það eru mörg fyrirtæki sem koma og kynna sér þetta. Vegna þess að við getum sýnt fram á að við höfum náð betri rekstrarárangri og höfum líka náð betri árangri varðandi starfsfólkið. Að það er, það er meiri starfsánægja og minni starfsmannavelta og fleira. Þannig að þetta hefur skilað sér mjög vel inn í samfélagið.“
Öryggismenning með tilkomu álversins
Sigurður nefnir að einhverjir hafi sagt það að fyrirtækið hafi kennt Íslendingum að nota hjálma á sínum tíma. Hann segir að öryggismenning og aðrir þættir hafi kannski komið eins og ferskur andblær með tilkomu álversins til Íslands. Rannveig segir að þetta hafi verið það fjarlægt meira að segja þegar hún byrjaði í Straumsvík þá hafi menn verið að spyrja hana hvort hún héldi að það kæmu loftsteinar. „Vegna þess að það að nota hjálma á vinnustað var eitthvað sem fólki fannst mjög fjarlægt. Þannig að það má alveg segja það að stóriðjan hafi kennt það eða ÍSAL á sínum tíma.“
Rannveig segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á vottanir, gæðavottun og umhverfisvottun, og hafi verið með þeim fyrstu til að fá ISO vottanir. „Þannig að við vorum mjög sterk, stór aðili að innleiða slík kerfi á landinu og fylgjast vel með umhverfismálum. Það eru til nákvæmar mælingar á umhverfismálum alveg frá því áður en verksmiðjan fór í gang. Þannig að það er á ýmsum sviðum. Má líka að nefna á sviði starfsmannamála eða mannauðs að við höfum verið mjög svona áhugasöm um að vera í broddi fylkingar með það.“ Þá nefnir hún að ÍSAL sé annað fyrirtækið á Íslandi sem fái hinsegin-vottun frá Samtökunum 78‘. „Þannig að við erum hinsegin vænt fyrirtæki. Ef ég má nota það orðalag. Líka lengt fæðingarorlofa með launauppbót á móti fæðingarorlofssjóði og erum með stuðning við áætlun gagnvart starfsfólki sem verður fyrir heimilisofbeldi, eru þolendur þar. Þannig að þetta snýst svona um starfsfólkið líka. Þannig að það eru ýmsa þætti sem þetta hefur snert.“
Ógagnsæi í stjórnkerfinu
Þegar Sigurður spyr í ljósi þess að fyrirtækið sé hluti af alþjóðlegu fyrirtæki með erlenda eigendur hvernig gangi að útskýra hvernig hlutirnir gangi fyrir sig hér á landi og hvernig umhverfið sé svarar Rannveig að hvernig umhverfið er gangi nú oft brösuglega að útskýra, og það sé aðallega vegna þess að fólk verður mjög undrandi á ógagnsæinu í stjórnkerfinu. „Og það er svona virkni allra þátta, að fá leyfisveitingar og allir kærumöguleikar. Og það er raunverulega ekki hægt að útskýra fyrir fjárfestum hvað þarf að gera til að, hvað þarf að uppfylla, fá að framkvæma ákveðna hluti. Þau ferli eru afar óljós og ógagnsæ og tímafrestir eru nokkuð sem hið opinbera virðir almennt ekki.“ Hún segir að það sé það sem sé frekar erfitt að útskýra. „Og svo er líka svona stefnan í atvinnumálum er frekar óljós. Þannig að það er svona oft erfitt að henda reiður á það og útskýra það fyrir aðkomufólki hér, hvernig það virkar.“
Ósamræmi milli vinnuafls og þarfa í atvinnulífinu
Rannveig segir jafnframt að útlendingar komi oft auga á eitthvað sem að okkur finnst ekki alltaf blasa við. „Þau eru til dæmis mjög oft hissa á því að hér sé bara ekki annar hver maður pípari. Við erum með allar þessar jarðvarmavirkjanir og hitaveitur út um allt en erum með mjög fáa pípulagningarmenn. Og svo erum við með mikið af verkfræðingum í rafmagnsverkfræði en þeir eru meira og minna allir í veikstraum. Þannig að við erum með frekar fáa háspennuverkfræðinga. Þannig að miðað við innviði landsins og hvað Ísland er þekkt fyrir má kannski segja að það sé svona ákveðið ósamræmi milli vinnuaflsins í landinu varðandi menntun og þeirrar þarfa sem er í atvinnulífinu. Þannig að það er svona, það er svona ákveðið bil.“
Rannveig segir að í sambandi við störfin sé oft erfitt að útskýra fyrir útlendingum að maður sé ekki með sterk spil á hendi þegar maður sé að koma inn í landið með stöðug vel launuð störf. „Það er ekki eitthvað mjög sterkt spil á Íslandi og þeir eiga oft mjög erfitt með að átta sig á þessu.“ Hún segir að sér finnist samt umræðan undanfarið vera þannig að það sé eins og fólk sé að vakna til lífsins og átta sig á þessum atriðum og kannski verði unnin einhver bragarbót á þessu á næstunni. „Mér finnst svona umræðan vera að hallast meira í þessa átt að það sé ákveðið óþol gagnvart þessum þáttum.“
Oft er búnaður bara betri ef hann er gamall
Þegar Sigurður spyr hana hvernig hún svari því segir að stundum sé því haldið fram, hvað varðar hennar fyrirtæki, sem hefur starfsemi 1969 að búnaðurinn sé svo gamall að fyrirtækið hljóti að vera að fara að skella í lás segir Rannveig að búnaðurinn sé að mörgu leyti gamall en það hafi verið vel byggt og verið vel við haldið. „Oft er búnaður bara betri ef hann er gamall. Skoðið það bara með ísskáp sem er sextíu ára, hann er miklu öflugri en ísskápur sem þið kaupið í dag. Þannig að það er nú, þetta var nú vel hannað og Svisslendingarnir sem hönnuðu og byggðu álverið, þeir hugsuðu um að fjárfesta mikið í byrjun og hafa grunninn góðan. Svo reksturinn væri ódýrari síðar. Þannig að við búum að þeirri hugsun en auðvitað er akkilesarhællinn okkar er að við erum með lítil ker og þar af leiðandi þurfa þau að vera mörg, um 480 ker, sem er dálítið mikið. En við erum búin að tölvuvæða þau og tölvustýra þau og svona, þannig að við erum að gera það sem við getum þar.“
Einhver fullkomnasti steypuskáli í Evrópu
Rannveig segir að fyrirtækið sé með einhvern fullkomnasta steypuskála í Evrópu. „Og ég veit ekki hvort allir átta sig á því en að við erum að framleiða tvö hundruð vörutegundir af áli. Flest álver í heiminum eru að framleiða svona tvö, þrjú, fjögur. En ISAL hefur mjög mikla sérstöðu þarna. Við erum búin að vera í þessu í allnokkurn tíma og við erum með sjötíu viðskiptavini víðs vegar um Evrópu. Áliðnaðurinn hér flytur nú allt á Evrópu sem betur fer. En við erum með mjög flókinn og mjög sérhæfða vöru, þannig að það eru svona ekki allir sem geta framleitt þetta og það væri erfitt fyrir aðra að ætla að stökkva inn í þá framleiðslu. Og þetta þýðir náttúrulega að við fáum meiri virðisauka. Þannig að það er svona mikill hvati í því að halda þessum rekstri bara vel áfram.“
Rio Tinto lítur mjög björtum augum á framtíðina í áliðnaði
Þegar Sigurðu spyr Rannveigu hvernig starfsemin verður 2040 segir hún að búið sé að vera undirbyggja undir það að geta verið í langtíma starfsemi. „Við erum búin að endurnýja starfsleyfi og eru komin með langan kjarasamning og langan raforkusamning og erum að framleiða mjög verðmæta og sérhæfða vöru. Og Rio Tinto, sem er eigandi álversins, lítur mjög björtum augum á framtíðina fyrir áliðnaðinn og er að efla sig mjög í Evrópu. Og það er að standa núna að undirbúningi að byggingu risastórs álvers í Finnlandi sem myndi byggja á endurnýjanlegri orku og það er fyrsta álver sem verið er að ræða um, einu sinni, að byggja á meginlandi Evrópu bara síðustu þrjátíu ár. Þannig að það er mjög skarpur fókus á Evrópu. Og við erum að framleiða flóknar vörur og við munum halda því áfram og vera þar framarlega og erum síðan á miklum krafti í snjallvæðingu og þurfum að efla okkur þar og ná lengra.“ Rannveig segist halda að framtíðin kalli á að það séu kröfur um sjálfbærni og hringrásarhagkerfi. „Þannig að við þurfum að ná kolefnissporinu niður. Og ég held að samkeppnisforskot okkar liggi þar. Og það styður stefnu stjórnvalda að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040 og við vinnum ötullega að því og við erum bara alveg á blússandi siglingu.“
Rannveig Rist og Sigurður Hannesson.
Hér er hægt að nálgast upptöku af samtalinu: