Fréttasafn



28. okt. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Áætlanir Reykjavíkurborgar ófullnægjandi

Í Morgunblaðinu er vitnað til orða Sigurður Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Dagmálum þar sem hann segir meðal annars í tengslum við nýja útgáfu Reykjavíkurborgar að áætlanir borgarinnar varðandi húsbyggingar næsta áratuginn séu ófullnægjandi. Borgin geri ráð fyrir að í borgarlandinu rísi um 10.000 nýjar íbúðir á þessum áratug en Samtök iðnaðarins telji þörfina fyrir allt landið standa í 30.000 íbúðum fyrir tímabilið og að fyrirhugað framlag Reykjavíkurborgar til að stoppa upp í það gat sé ófullnægjandi. Í Dagmálum ræðir Stefán Einar Stefánsson, fréttastjóri, við Sigurð og Magnús Árna Skúlason, hagfræðingi hjá Reykjavik Economics, um stöðuna á húsnæðismarkaði.

Ástæðuna fyrir ástandi á íbúðamarkaði er að finna í ráðhúsinu

Í fréttinni kemur fram að ný verðbólgumæling Hagstofunnar sýni að hækkandi húsnæðisverð sé helsti orsakavaldurinn þegar litið sé til hækkandi verðlags í landinu. Verðbólgan mælist 4,5% en án húsnæðisliðarins væri hún 3%. Vitnað er til orða Sigurðar og sagt að hann sé ómyrkur í máli þegar hann tjái sig um hver beri helstu ábyrgðina á ástandi á markaði með íbúðarhúsnæði. „Landsmenn, sem eiga þá færri krónur í veskinu um hver mánaðamót, [vita] að ástæðuna er að finna í ráðhúsinu.“ 

Raunverulegar íbúðir í byggingu er annað en útgefin byggingarleyfi 

Jafnframt kemur fram í Morgunblaðinu að Samtök iðnaðarins telji íbúðir sem raunverulega séu í byggingu meðan Reykjavíkurborg, eins og mörg önnur sveitarfélög meti framboðið fram undan út frá fjölda útgefinna byggingarleyfa. Þau gefi ekki alltaf raunsanna mynd af því hvað sé í pípunum. Þá segir að Sigurður taki undir þau sjónarmið sem seðlabankastjóri hafi viðrað að undanförnu að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög í kring þurfi að brjóta nýtt land undir byggð. Sigurður segir að nýr bæklingur Reykjavíkurborgar gefi þó ekki til kynna að það verði reyndin, öll áhersla sé á þéttingarreiti. 

Einfalda þarf kerfið í byggingageiranum

Í umræðunni í Dagmálum er einnig rætt um mikilvægi þess að einfalda kerfið þegar komi að byggingageiranum. Í Morgunblaðinu er sagt frá því að Sigurður bendi á að byggingageirinn sé í raun ekki kominn inn í þriðju iðnbyltinguna, nú þegar farið er að ræða um þá fjórðu. Það birtist m.a. í því að öllum teikningum þurfi að skila útprentuðum til byggingafulltrúa, jafnvel þótt þær séu allar unnar rafrænt og séu að lokum skannaðar inn hjá hinu opinbera, til þess að þær séu aðgengilegar rafrænt. Í máli Sigurður kemur fram að þetta kosti mikla fyrirhöfn og fjármuni og dæmi séu um í einu fjölbýlishúsaverkefni að prentkostnaður vegna þessara teikninga hafi numið tveimur milljónum króna. Ljóst sé hver sitji uppi með reikninginn vegna þessa í lok dags; kaupendur íbúðarhúsnæðisins. Bendir Sigurður á að hinar útprentuðu teikningar séu sjaldnast notaðar af þeim sem reisi byggingarnar, tölvutæknin hafi tekið alls staðar yfir nema hvað viðkemur samskiptum við byggingayfirvöld. 

Morgunblaðið / Dagmál, 28. október 2021.

Morgunbladid-28-10-2021